Everton bjargaði mikil­vægu stigi

Siggeir Ævarsson skrifar
Jarrad Branthwaite fagnar jöfnunarmarkinu
Jarrad Branthwaite fagnar jöfnunarmarkinu vísir/Getty

Tottenham gat blandað sér toppbaráttuna í ensku úrvalsdeildinni með sigri á Everton sem er í bullandi fallbaráttu en liðin enduðu á að skipta stigunum á milli sín.

Hinn sjóðheiti Richarlison kom Tottenham yfir gegn sínum gömlu félögum strax á 4. mínútu og kom þeim svo yfir á ný áður en flautað var til hálfleiks.

Tottenham í nokkuð þægilegri stöðu í hálfleik og var seinni hálfleikur nokkuð tíðindalítill framan af. Það var þó ljóst að Evertonmenn voru staðráðnir í að sækja í það minnsta eitt stig og bættu í sóknarleikinn eftir því sem á leið.

Á 95. mínútu uppbótartíma bar sú vinna ávöxt þegar Jarrad Branthwaite skallaði boltann í netið eftir aukaspyrnu. Það var Cristian Romero, fyrirliði Tottenham, sem lagði marktækifærið upp þegar hann skallaði boltann í átt að eigin marki eftir aukaspyrnuna.

Everton nældi þarna í dýrmætt stig í fallbaráttunni og fer tímabundið úr fallsæti. Liðið er með jafn mörg stig og Luton, sem á tvo leiki til góða á Everton. Tottenham aftur á móti missti af gullnu tækifæri til að skjóta sér upp fyrir Arsenal og eru áfram í 4. sæti.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira