Erlent

Stubb sigraði fyrri um­ferð finnsku for­seta­kosninganna

Gunnar Reynir Valþórsson skrifar
Þeir Alexander Stubb, til hægri og Pekka Haavisto þurfa að takast á í seinni umferð finnsku forsetakosninganna. 
Þeir Alexander Stubb, til hægri og Pekka Haavisto þurfa að takast á í seinni umferð finnsku forsetakosninganna.  Markku Ulander/Lehtikuva via AP

Finnsku forsetaframbjóðendurnir Alexander Stubb og Pekka Haavisto voru atkvæðamestir í forsetakosningunum sem fram fóru í landinu í gær.

Eins og lög gera ráð fyrir þar í landi fer nú fram seinni umferð þar sem kosið er á milli tveggja efstu manna. Mjótt er á munum en Alexander Stubb, sem er fyrrverandi forsætisráðherra og meðlimur Íhaldsflokksins í Finnlandi fékk rúm 27 prósent atkvæða en Pekka Haavisto, fyrrverandi utanríkisráðherra fékk rúm 25 prósent. Þar á eftir kom frambjóðandi Sannra Finna, Jussi Halla-aho en hann fékk um nítján prósent atkvæða.

Kosningaþátttaka var með ágætum og hefur ekki verið eins góð frá árinu 2006 en tæp 75 prósent þeirra sem voru með kosningarétt nýttu sér hann í gær.

Stjórnmálaskýrendur meta það sem svo að Alexander Stubb sé nú með pálmann í höndunum en sigurvegari fyrstu umferðar í forsetakosningum í Finnlandi hefur alltaf farið með sigur af hólmi í seinni umferðinni. Frambjóðendur nú voru þó óvenju margir og því þurfa 47 prósent kjósenda í fyrri umferð að finna sér nýjan frambjóðanda nú sem gæti gefið Haavisto möguleika á sigri.

Seinni umferðin fer fram þann ellefta febrúar næstkomandi og þá kemur í ljós hver verður 13. forseti Finnlands.


Tengdar fréttir

Finnar kjósa sér forseta í dag

Forsetakosningar Finna fara fram í dag. Baráttan um embættið stendur milli níu frambjóðenda. Ef enginn þeirra hlýtur yfir fimmtíu prósent atkvæða fer fram önnur umferð eftir tvær vikur. 



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×