Erlent

Endur­tekning á síðustu kosningum í kortunum

Samúel Karl Ólason skrifar
Joe Biden og Donald Trump munu að öllum líkindum berjast aftur um Hvíta húsið í nóvember.
Joe Biden og Donald Trump munu að öllum líkindum berjast aftur um Hvíta húsið í nóvember. AP

Donald Trump, fyrrverandi forseti Bandaríkjanna og núverandi forsetaframbjóðandi, vann nokkuð öruggan sigur gegn Nikki Haley í forvali Repúblikanaflokksins í New Hampshire í gær. Kjósendur í ríkinu eru þekktir fyrir að vera óútreiknanlegir en þeir komu ekki á óvart og eru líkurnar á því að Trump mæti Joe Biden, forseta, í kosningunum í nóvember orðnar töluvert meiri.

AP fréttaveitan segir það aldrei hafa gerst að forsetaframbjóðandi sem vann bæði Iowa og New Hamsphire, eins og Trump, tryggi sér ekki tilnefningu flokks síns.

Trump veitti Haley þó ekki það rothögg sem hann vonaðist eftir og hún hefur heitið því að berjast áfram í forvalinu en næst fer það fram í Suður-Karólínu, heimaríki hennar, þann 24. febrúar.

Sjá einnig: Trump með öruggan sigur í New Hamps­hire

Hann hefur verið sífellt harðorðari í garð Haley og hefur meðal annars ýtt undir rasískar samsæriskenningar um að hún sé ekki raunverulega bandarískur ríkisborgari, eins og hann hélt einnig ítrekað fram með Barack Obama á árum áður.

Samkvæmt frétt Reuters var Trump verulega reiður yfir því að Haley hætti ekki þátttöku sinni í forvalinu.

Í nýrri auglýsingu sem birt var í ríkinu í morgun heldur Haley því fram að hún tákni nýjan kafla í sögu Bandaríkjanna. Hún segir Biden og gamlan til að vera forseta og að Trump fylgi of mikil óreiða. Enginn vilji endurtekningu á kosningunum 2020.

Það stefnir þó í endurtekningu á kosningunum 2020.

Kannanir í Suður-Karólínu gefa til kynna að Trump njóti töluverðs forskots á Haley. Ef marka má samantekt tölfræðimiðilsins fivethirtyeight, er Trump með 62,2 prósenta fylgi meðal kjósenda Repúblikanaflokksins í ríkinu en Haley með 25 prósenta fylgi.

Trump er í þeirri stöðu að hann getur varla tapað forvalinu. Hann á sér sterkan grunn kjósenda innan Repúblikanaflokksins og þarf ekki að laða til sín nýja kjósendur. Hann þarf eingöngu að tryggja að sínir stuðningsmenn taki þátt í forvalinu.

Velgengni í forvali ekki ávísun á auðveldar kosningar

Þó sigur Trumps í forvali Repúblikanaflokksins þyki líklegur eru teikn á lofti um að hann gæti átt í erfiðleikum með að sigra Biden í nóvember. Þar á meðal eru þau miklu vandræði sem hann stendur frammi fyrir í dómsölum víðsvegar um Bandaríkin.

Eins og bent er á í frétt AP fréttaveitunnar hefur Trump ekki tryggt sér fylgi frá óháðum kjósendum. Í New Hampshire fékk Haley til að mynda mun meiri stuðning frá fólki sem titlar sig hófsama Repúblikana eða óháðum kjósendum. Hún fékk einnig fleiri atkvæði meðal háskólamenntaðra.

Í frétt Politico segir að Trump hafi í raun eingöngu hlotið náð um 230 þúsund kjósenda í Iowa og New Hampshire og í báðum ríkjum hafi úrslitin verið verri fyrir hann en kannanir höfðu gefið til kynna.

Til að tryggja sér sigur í forsetakosningunum í nóvember þyrfti Trump að tryggja sér stuðning fólks eins og þeirra í Iowa og New Hampshire sem veittu Haley atkvæði þeirra. Í New Hampshire sögðu níu af hverjum tíu sem studdu Haley að þau yrðu ekki sátt við þriðja framboð Trumps. Þá sögðu 84 prósent þeirra að Trump væri óhæfur til embættis forseta, verði hann fundinn sekur um glæp.

Bæði Trump og Biden þurfa að ná til stórra hópa kjósenda sem eru ósáttir við að þessir gömlu menn séu að bjóða sig aftur fram. Trump hefur sýnt að hann á erfitt með að fá fólk á sitt band og sést það ef til vill best á því að hann tapaði kosningunum 2020 og frambjóðendur í þingkosningunum 2022 sem stilltu sér upp með honum, töpuðu í hrönnum.

„Ekki bera mig saman við almættið“

Kosningastjóri Bidens, Julie Chaves Rodriguez, vísaði til fyrri orða Bidens í samtali við blaðamenn í dag um að hann segði að fólk ætti að líta á kosningar sem val.

„Ekki bera mig saman við almættið, berið mig saman við hinn valkostinn,“ hefur Biden sagt.

Rodriguez sagði framboð Trumps snúast um hefnd og að hann ógnaði lýðræði Bandaríkjamanna og frelsi þeirra. Biden og Kamala Harris ætluðu sér að færa Bandaríkin framávið og bæta líf almennings.


Tengdar fréttir

Vonast eftir afgerandi sigri gegn Haley

Donald Trump, fyrrverandi forseti Bandaríkjanna og núverandi forsetaframbjóðandi, vonast eftir yfirgnæfandi sigri í forvali Repúblikanaflokksins í New Hampshire í dag. Hann vonast til þess að sigurinn verði svo afgerandi að hann geri út af við mótframboð Nikki Haley og annarra frambjóðenda.

Meint framhjáhald gæti tafið málaferli gegn Trump um ár

Fani Willis, héraðssaksóknari í Fulton-sýslu i Georgíu í Bandaríkjunum, hefur verið sökuð um að halda við saksóknarann sem hún réð til að halda utan um málaferli ríkisins gegn Donald Trump, fyrrverandi forseta. Ásakanirnar gætu leitt til margra ára tafa á málaferlunum gegn Trump og öðrum sem voru ákærðir með honum.

Ron DeSantis dregur framboð sitt til baka

Ron DeSantis, ríkisstjóri Flórída, er hættur við að bjóða sig fram til embættis Bandaríkjaforseta. Hann lýsir yfir stuðningi við Donald Trump sem fulltrúa Repúblikana í forsetakosningunum sem fram fara í nóvember

Skaut fast á Trump, sem ruglaðist á henni og Pelosi

Nikki Haley, forsetaframbjóðandi í Repúblikanaflokknum, velti í gær vöngum yfir því hvort Donald Trump gæti setið annað kjörtímabil sem forseti Bandaríkjanna, eftir að hann ruglaðist ítrekað á henni og Nancy Pelosi, fyrrverandi þingforseta fulltrúadeildar Bandaríkjaþings, í ræðu sem hann hélt á föstudagskvöldið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×