Innlent

Dæmi um að flug­fé­lög af­hendi ekki far­þega­lista

Lovísa Arnardóttir skrifar
Úlfar Lúðvíksson, lögreglustjóri á Suðurnesjum, segir eftirlit með farþegum í skötulíki þegar upplýsingar berast ekki. 
Úlfar Lúðvíksson, lögreglustjóri á Suðurnesjum, segir eftirlit með farþegum í skötulíki þegar upplýsingar berast ekki.  Vísir

Tíu flugfélög skila ekki farþegalistum til yfirvalda sem hefur þau áhrif að lögbundin greining á farþegaupplýsingum getur ekki farið fram.

Úlfar Lúðvíksson, lögreglustjórinn á Suðurnesjum, segir í samtali við Morgunblaðið í dag að eftirlit með farþegum sé í skötulíki og „hending ráði því hvort brotamenn séu stöðvaðir á landamærum“ þegar ekkert kerfisbundið vegabréfaeftirlit sé til staðar.

Úlfar segir ytri landamærin „leka“ og þá sérstaklega við Miðjarðarhafið. Hann segir óþolandi að sum flugfélög komist upp með þetta á meðan önnur skili upplýsingunum ávallt til yfirvalda. Í frétt Morgunblaðsins segir að samkvæmt þeirra heimildum séu það Neos, Austrian Airlines, Atlantic Airways, Lufthansa, Liberia Express, Finnair, Eurowings, Edelweiss, Jet2.com og Air Baltic sem ekki hafa skilað upplýsingum til yfirvalda. 

Ísland er innan Schengen en á ytri landamærum þess. Eins og til dæmis Grikkland og Ítalía við Miðjarðarhafið.

Á vef utanríkisráðuneytisins segir að Schengen-samstarfið felist, í grundvallaratriðum, í tvennu.  Annars vegar afnámi persónubundins eftirlits á innri landamærum Schengen-landanna og hins vegar mótvægisaðgerðum, sem felst einkum í samvinnu evrópskra lögregluliða, til að tryggja öryggi borgara á Schengen-svæðinu. Með afnámi persónubundins eftirlits á innri landamærum Schengen-ríkjanna er ætlað að greiða fyrir frjálsri för fólks innan Evrópusambandsins, en frjáls för fólks er einn liður í fjórfrelsi innri markaðar Evrópusambandsins sem Ísland gerðist aðili að með EES-samningnum.

 Innviðaráðherra, segir í samtali við Morgunblaðið að málið sé til skoðunar í ráðuneyti hans.

Fjallað er nánar um málið í Morgunblaðinu í dag.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×