Erlent

Engan bil­bug á Hútum að finna þrátt fyrir á­rásir Banda­ríkjanna

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Ljósmyndin er tekin af bandaríska skipinu Genco Picardy sem Hútar réðust á síðastliðinn miðvikudag. Indverski sjóherinn náði þessari ljósmynd af skemmdunum um borð skipsins.
Ljósmyndin er tekin af bandaríska skipinu Genco Picardy sem Hútar réðust á síðastliðinn miðvikudag. Indverski sjóherinn náði þessari ljósmynd af skemmdunum um borð skipsins. AP/Indverski sjóherinn

Bandaríski herinn hélt árásum sínum á Húta í Jemen áfram í nótt. Joe Biden Bandaríkjaforseti segir árásirnar, sem nú eru orðnar fimm á einni viku, ekki hafa borið tilætlaðan árangur.

Í þessum síðustu aðgerðum beindu Bandaríkjamenn spjótum sínum að eldflaugaskotpöllum Húta, sem þeir segja hafa átt að nota gegn skipum á Rauðahafinu. 

Joe Biden Bandaríkjaforseti sagði í tilkynningu að aðgerðum yrði fram haldið þrátt fyrir að þær hafi ekki borið tilsettan árangur. Hútar hafa haldið sínum árásum á frakt- og herskip á Rauðahafinu áfram þrátt fyrir mótsvar Bandaríkjanna og Bretlands.

Nokkrum klukkustundum síðar tilkynnti Yahya Saree, herforingi í liði Húta, að hersveitir hans hafi gert aðra eldflaugaárás á flutningaskipið Chem Ranger, sem siglir undir flaggi Marshall eyja en er í eigu Bandaríkjamanna. Saree sagði að árásin hafi verið gerð í Adenflóa, rétt suður af Jemen. 

Svo virðist þó sem skipið hafi ekki skemmst í árásunum, sem Bandaríkjaher staðfesti í tilkynningu á Twitter. 

Hútar, sem njóta stuðnings frá yfirvöldum í Íran, hafa árum saman háð blóðuga styrjöld við alþjóðlega viðurkennd stjórnvöld Jemen. Þeir hafa einnig beint spjótum sínum að Sádi-Arabíu en yfirvöld þar í landi hafa stutt jemensk stjórnvöld. 

Hútar stjórna stórum hluta landsins, einkum í norðri og vestri. Þar á meðal er höfuðborgin Sana'a og allt það strandsvæði sem liggur við Bab al-Mandab-sund. Til þess að komast frá Adenflóa, inn um RAuðahaf og þaðan gegnum Súesskurðinn þurfa skip að sigla meðfram yfirráðasvæði Húta. 

Þeir hafa undanfarnar vikur nýtt sér þetta og gert fjölda árása á flutninga- og herskip. Að þeirra sögn beina þeir árásum sínum aðeins að skipum Ísraela eða að skipum sem eru á leið til hernumdu Palestínu, enda eru þeir enarðir stuðningsmenn Palestínumanna og frelsunar þeirra. Það hefur hins vegar ekki staðist og þeir beint spjótum að skipum sem ekkert hafa með átökin fyrir botni Miðjarðarhafs að gera.


Tengdar fréttir

Gerðu árásir á Húta í fjórða sinn á viku

Bandaríkjamenn gerðu í nótt árásir á Húta í Jemen. Það var í fjórða sinn á viku sem eldflaugum er skotið að uppreisnarmönnunum, sem hafa verið að gera árásir á fraktskip á Rauðahafi og Adeanflóa. Árásirnar voru gerðar í kjölfar þess að yfirvöld í Bandaríkjunum skilgreindu Húta sem hryðjuverkasamtök á nýjan leik.

Hútar hóta hefndum

Hútar hóta hefndaraðgerðum vegna sprengjuárásum sem gerðar voru af Bretlandi og Bandaríkjunum í gærnótt. Tugþúsundir komu saman í Sana höfuðborg landsins til að mótmæla og krefjast aðgerða.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×