Erlent

Gerðu á­rásir á Húta í fjórða sinn á viku

Samúel Karl Ólason skrifar
Hútar héldu um síðustu helgi mótmæli, þar sem þeir mótmæltu árásum Bandaríkjamanna og Breta gegn þeim í Jemen.
Hútar héldu um síðustu helgi mótmæli, þar sem þeir mótmæltu árásum Bandaríkjamanna og Breta gegn þeim í Jemen. AP

Bandaríkjamenn gerðu í nótt árásir á Húta í Jemen. Það var í fjórða sinn á viku sem eldflaugum er skotið að uppreisnarmönnunum, sem hafa verið að gera árásir á fraktskip á Rauðahafi og Adeanflóa. Árásirnar voru gerðar í kjölfar þess að yfirvöld í Bandaríkjunum skilgreindu Húta sem hryðjuverkasamtök á nýjan leik.

Eldflaugunum var skotið af skipum og kafbátum að skotmörkum í Jemen. Þar á meðal voru fjórtán eldflaugar sem Hútar höfðu komið fyrir á skotpöllum.

Í tilkynningu frá stjórn herafla Bandaríkjanna á þessu svæði, segir að árásirnar hafi verið gerðar í sjálfsvörn, þar sem eldflaugum Húta hefði getað verið skotið að frakt- og herskipum á svæðinu.

Þar segir að markmið árásanna sé einnig að draga úr getu Húta til að halda árásum sínum áfram.

Hútar, sem njóta stuðnings frá Íran, hafa um árabil háð blóðuga styrjöld við alþjóðlega viðurkennd stjórnvöld í Jemen. Þeir hafa sömuleiðis gert árásir í Sádi-Arabíu en Sádar hafa staðið við bakið á yfirvöldum í Jemen.

Hópurinn stjórnar Sanaa, höfuðborg Jemen, og stórum hlutum landsins í norðri og vestri. Átökin hafa leitt til hrikalegs mannúðarástands í Jemen, þar sem fátækt er mikil. Hungursneyð og smitsóttir hafa leikið í íbúa landsins grátt.

Til að komast inn í Rauðahaf úr suðri og þaðan gegnum Súes-skurðinn inn á Miðjarðarhafið þarf að sigla skipum um Aden-flóa og Bab al-Mandab-sund. Skipin fara því mjög nærri ströndum Jemen og yfirráðasvæði Húta. Á undanförnum vikum hafa Hútar skotið eldflaugum og flogið sjálfsprengidrónum að flutningaskipum og herskipum.

Hútar hafa skotið eldflaugum að nærri því fjörutíu fraktskipum og flogið sjálfsprengidrónum að þeim. Þar að auki hafa þeir gert árásir á bandarísk, bresk og frönsk herskip. Hútar hafa einnig sent sérsveitarmenn til að taka stjórn á skipum sem siglt er um svæðið.

Uppreisnarmennirnir tilkynntu í desember að gerðar yrðu árásir á öll skip sem verið væri að sigla til Ísrael, nema þau færu einnig með neyðarbirgðir til Palestínu. Mörg þeirra skipa sem þeir hafa skotið á hafa þó ekki tengst Ísrael á nokkurn hátt.

AP fréttaveitan hefur eftir herforingjanum Pat Ryder, talsmanni varnarmálaráðuneytis Bandaríkjanna, að áfram yrði gripið til aðgerða til að koma í veg fyrir frekari árásir Húta.

Fyrr í vikunni lögðu Bandaríkjamenn hald á eldflaugahluta sem verið var að sigla frá Íran til Jemen. 

Tveggja sérsveitarmanna sjóhers Bandaríkjanna sem tóku þátt í því að leggja hald á vopnasendinguna er saknað. Annar þeirra féll í sjóinn þegar alda skall á honum og hinn stökk á eftir honum til að koma honum til aðstoðar.


Tengdar fréttir

Pakistan svarar fyrir sig

Pakistan svaraði eldflaugaárásum, sem Íran gerði á landið í fyrradag, í sömu mynt í gærkvöldi. Að sögn pakistanskra yfirvalda var spjótunum beint að hryðjuverkahópum, sem lægju í felum í héraðinu Sistan-o-Balochistan sem á landamæri að Pakistan. 



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×