Innlent

Ljónið í veginum ríkis­stjórnin sjálf

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Inga Sæland, formaður Flokks fólksins, og Logi Einarsson, formaður þingflokks Samfylkingarinnar, voru í Pallborðinu í dag.
Inga Sæland, formaður Flokks fólksins, og Logi Einarsson, formaður þingflokks Samfylkingarinnar, voru í Pallborðinu í dag. Vísir/Ívar Fannar

Þó að samstaða ríki meðal allra flokka á þingi um að greiða götu Grindvíkinga er ríkisstjórnin birtingarmynd pólitísks óstöðugleika í öllum öðrum málum, segir þingflokksformaður Samfylkingarinnar.

Í Pallborðinu í dag, þar sem fulltrúar stjórnarandstöðunnar mættu til leiks, sagði Logi Einarsson, þingflokksformaður Samfylkingarinnar, að flokkur hans hefði engan áhuga á pólitískum óstöðugleika við þær aðstæður sem nú væru uppi, og vísaði þar til Grindavíkur. 

„Hins vegar verðum við að horfa til þess að flokkar þvert á stjórn og stjórnarandstöðu eru einhuga um verkefnin varðandi Grindavík, og við getum alveg keyrt þau áfram þó svo að sigli í kosningar,“ sagði Logi.

Pólitíski óstöðugleikinn birtist hins vegar innan ríkisstjórnarinnar, sem „kemur fram á hverjum morgni eins og ástlaus og örg hjón sem garga á hvert annað, og geta ekki komið fram með þær nauðsynlegu aðgerðir sem þarf til, til dæmis til að greiða fyrir kjarasamningum,“ sagði Logi.

Burtséð frá atburðum í Grindavík, sem Logi segir að allir flokkar á þingi geti unnið saman að því að bregðast við, þá sé ríkisstjórnin sjálf ljónið í veginum í svo mörgum öðrum málum. 

Ríkisstjórnin ósammála sjálfri sér í grundvallaratriðum

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þingmaður Pírata, tók undir það með Loga að ekki þyrfti nákvæmlega þessa ríkisstjórn til að bregðast við neyðarástandi í Grindavík. 

„Og það þarf ekki þessa ríkisstjórn til að takast á við verkalýðshreyfinguna, vegna þess að verkalýðshreyfingin er bara mjög skýr með hvað hún þarf. Það sem flækir málin líka er að þau eru ekki innbyrðis sammála um að það eigi að vera gott og öruggt og tryggt velferðarkerfi á Íslandi,“ sagði Þórhildur Sunna. 

Pallborðsþáttinn í heild sinni má sjá hér að neðan. 

Eins má hlusta á Pallborðið á Spotify.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×