Erlent

Tvö börn sögð hafa látið lífið í á­rás Íran á Pakistan

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir og Gunnar Reynir Valþórsson skrifa
Íranir gerðu árás innan landamæra Pakistan í gær.
Íranir gerðu árás innan landamæra Pakistan í gær. Getty/Morteza Nikoubazl

Pakistanar segja að tvö börn hafi látið lífið og að þrír séu særðir eftir að Íranir gerðu loftárásir innan landamæra nágrannaríkisins í gær.

Íranir segjast hafa verið að uppræta bækistöðvar vígamanna úr röðum Jaish al-Adl en Pakistanar hafna því og segja um ólöglega árás á fullvalda ríki að ræða sem gæti haft alvarlegar afleiðingar. 

Pakistan er þriðja ríkið, á eftir Sýrlandi og Írak, sem Íranir hafa gert árásir á síðustu daga. Írönsk árás á Pakistanskt landsvæði er nær án fordæma en um er að ræða héraðið Balokistan sem er á landamærunum. Þar hafa vígahópar á borð við Jaish al-Adl löngum þrifist

Utanríkisráðuneyti Pakistan skrifaði í yfirlýsingu í gær að árásin væri tilefnislaus árás. Ráðuneytið sagði árásina gjörsamlega óásættanlega og bætti við að það sem ylli enn meiri áhyggjum væri það að árásin hafi verið framin þrátt fyrir að Pakistan og Íran ættu í opnum samskiptum. 

Spennustigið á svæðinu hefur verið mjög hátt síðan átök hófust á Gasaströndinni í byrjun októbermánaðar. Íranir hafa lýst því yfir að þeir vilji ekki flækjast inn í alþjóðleg átök en ákveðnir hópar innan hersins hafa haldið úti árásum á Ísrael og bandamenn þess til að sýna Palestínumönnum stuðning. 

Þá hefur Hezbollah í Líbanon hefur þá átt í átökum við Ísraela á norðanverðum landamærum Ísraels við Gólanhæðir. Þar að auki hafa vígasveitir ráðist á Bandaríkjaher í Írak og Sýrlandi með eldflaugum og drónum. Hútar í Jemen hafa sömuleiðis beint spjótum sínum að skipum í Rauðahafi. 

Ísraelar hafa einnig beint spjótum út fyrir eigin landamæri, meðal annars með árás í Líbanon þar sem leiðtogi Hamas var drepinn. Þá hafa Bandaríkjamenn ráðist á vígasveitir í Írak og Jemen, þar sem leiðtogar hjá vígasveitum hafa verið drepnir. 


Tengdar fréttir

Skutu á sextíu skotmörk í Jemen í nótt

Bandaríkjamenn og Bretar gerðu í gærkvöld og í  nótt umfangsmilkar árásir á Húta í Jemen. Hersveitir vesturveldanna vörpuðu sprengjum á tugi staða, sem notaðir eru af Hútum. 

Felldu annan háttsettan á leið í jarðarför

Yfirmaður drónadeildar Hesbollah-samtakanna í Suður-Líbanon var felldur í líklegri loftárás Ísraela í dag. Maðurinn hét Ali Hussein Barji og er talinn hafa verið að sækja jarðarför annars leiðtoga samtakanna sem felldur var í loftárás í gær, þegar bíll hans varð fyrir sprengju.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×