Erlent

FBI rann­sakar kyn­ferðis­glæpi tísku­mógúls

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Abercrombie & Fitch er þekkt fyrir það að hálfnaktir ungir karlmenn standi við inngang búðanna.
Abercrombie & Fitch er þekkt fyrir það að hálfnaktir ungir karlmenn standi við inngang búðanna. Getty/Edward Wong

Alríkislögregla Bandaríkjanna, FBI, hefur nú til rannsóknar meint kynferðisbrot tískumógúlsins og fyrrverandi framkvæmdastjóra Abercrombie & Fitch. Rannsókninni var hrundið af stað í kjölfar fréttaumfjöllunar breska ríkisútvarpsins um málið.

Mike Jeffries var framkvæmdastjóri Abercrombie & Fitch í yfir tvo áratugi, frá 1992 til 2014. Fjöldi ungra karlmanna hefur kært Jeffries og maka hans, Matthew Smith, til lögreglu. Þeir eru grunaðir um að hafa nýtt valdastöðu sína og lofað ungum karlmönnum, sem vildu ólmir sitja fyrir tískumerkið, gulli og grænum skógum. 

Þess í stað hafi þeir gerst sekir um mansal með því að hafa kynferðislega misnotað, og leyft öðrum að kynferðislega misnota, unga menn á viðburðum sem þeir héldu bæði á heimili sínu í New York og víðs vegar um heim. FBI telur að Jeffries og Smith hafi misnotað meira en hundrað unga menn.

Mike Jeffries, fyrrverandi forstjóri Abercrombie & Fitch, er til vinstri á myndinni.Getty/Michael Loccisano

Meint kynferðisbrot Jeffries og Smith komu upp á yfirborðið þegar átta karlmenn stigu fram í heimildaþáttaröð og hlaðvarpi hjá breska ríkisútvarpinu. Allir þeirra sögðust hafa verið viðstaddir viðburði Jeffries í borgum á borð við Lundúnir, París og Marrakesh á árunum 2009 til 2015. 

Þeir sökuðu Jeffries og Smith um að hafa sjálfir leitað á þá kynferðislega eða fyrirskipað þeim að stunda kynlíf hver með öðrum. Rannsókn BBC leiddi í ljós að viðburðirnir og kynferðisbrotin voru vel skipulögð og fjöldi fólks kom að því að útvega strákana.

Einn þeirra, James Jacobsson sem nú er sjötugur, neitaði því staðfastlega í viðtali við BBC að hafa nokkuð rangt gert og sagði ungu mennina hafa sótt þessa viðburði af eigin sjálfsdáðum og með mikilli tilhlökkun. 

Abercrombie & Fitch hefur fordæmt hegðun Jeffries og segir í tilkynningu frá fyrirtækinu að því sé „misboðið“ að hann hafi komið svona fram. Fyrirtækið hefur ákveðið að minnka eftirlaunagreiðslur til Jeffries til muna, eða um eina milljón Bandaríkjadala á ári, sem nemur um 138 milljónum króna.


Tengdar fréttir

Ris og fall Abercrombie&Fitch í nýrri heimildarmynd

Heimildarmynd um ris og fall tískumerkisins Abercrombie&Fitch er væntanleg á Netflix í mánuðinum. Það þekkja flestir merkið á lyktinni einni og sér og eiga minningar úr verslunum þess þar sem tónlistin líktist því að vera á næturklúbbi. 



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×