Erlent

Kallar eftir myndun Evrópuhers

Rafn Ágúst Ragnarsson skrifar
Utanríkisráðherra Ítalíu segir Evrópusambandsher grundvallarskilyrði sameinaðrar utanríkisstefnu Evrópu.
Utanríkisráðherra Ítalíu segir Evrópusambandsher grundvallarskilyrði sameinaðrar utanríkisstefnu Evrópu. EPA/Giuseppe Lami

Antonio Tajani utanríkisráðherra Ítalíu kallar eftir því að Evrópusambandið myndi her til að sinna friðargæslu og afstýringu átaka. Þetta segir hann í viðtali við ítalska miðilinn La Stampa.

Hann segir nánara Evrópusamstarf vera forgangsatriði Forza-flokksins sem hann fer fyrir, samkvæmt Reuters.

„Ef við viljum vera friðargæsluverðir þurfum við evrópskan her. Og þetta er grundvallarskilyrði þess að geta rekið áhrifaríka evrópska utanríkismálastefnu,“ segir hann í viðtalinu sem birtist í morgun.

„Í heimi með öflugum leikmönnum eins og Bandaríkin, Kína, Indland og Rússland - og með átökum allt frá Miðausturlöndum til Kyrrahafsins - geta ítalskir, þýskir, franskir eða slóvenskir ríkisborgarar aðeins stólað á eitt vald sér til verndar, nefnilega Evrópusambandið,“ bætir hann við.

Tajani tók við forystu flokksins í kjölfar fráfalls hins alræmda Silvio Berlusconi sem hafði verið fyrirferðarmikill í ítölskum stjórnmálum alla 21. öldina.

Í ljósi inngöngu Finnlands í NATÓ og tilvonandi inngöngu Svíþjóðar og Bosníu og Hersegóvínu hafa ummæli utanríkisráðherrans vakið athygli.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×