Innlent

„Það virðast ein­hverjir brennu­vargar vera á ferð“

Magnús Jochum Pálsson skrifar
Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins hefur verið á fleygiferð í kvöld.
Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins hefur verið á fleygiferð í kvöld. Vísir/Vilhelm

Kveikt var í þremur mannlausum bílum fyrir framan bifvélaverkstæði við Smiðjuveg í Kópavogi í kvöld. Slökkviliðið hefur þar að auki verið á fleygiferð um bæinn í kvöld við að slökkva í smærri eldum.

Bjarni Ingimarsson, innivarðstjóri slökkviliðsins á höfuðborgarsvæðinu, staðfesti það við fréttastofu.

Tilkynnt var um eldinn á Smiðjuvegi um klukkan níu í kvöld en að sögn Bjarna var eldurinn ekki mikill þegar slökkvilið kom á vettvang. Vökva hafi verið hellt yfir bílana, sennilega bensíni og síðan var kveikt í því.

Að sögn varðstjóra logaði eldurinn bara utan á bílunum og á dekkjunum og voru slökkviliðsmenn því fljótir að slökkva eldinn.

Hafið þið staðið í einhverju öðru í kvöld?

„Við erum búnir að vera á fleygiferð. Það er búið að kveikja í gámi upp við Salaskóla, kveikja í rusli á Bíldshöfða og kveikt í rusli uppi á Lambhagavegi í Grafarholti. Það er búið að slökkva þetta allt saman,“ sagði Bjarni.

„Það virðast einhverjir brennuvargar vera á ferð. Það er þrettándinn, kannski verið að gera aukabrennnur,“ bætti Bjarni við. Hins vegar hafi um viðráðanlega elda að ræða og lítið tjón hlotist af brennunum.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×