Erlent

Andrés, Clinton og Trump nefndir til sögunnar í Epstein-skjölunum

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Það er fátt um bombur í dómsskjölunum sem núna hafa verið birt, eftir mikla eftirvæntingu.
Það er fátt um bombur í dómsskjölunum sem núna hafa verið birt, eftir mikla eftirvæntingu. AP

Andrés Bretaprins og Bill Clinton og Donald Trump, fyrrverandi Bandaríkjaforsetar, eru meðal þeirra sem eru nefndir í dómsskjölum í tengslum við athafna- og kynferðisbrotamanninn Jeffrey Epstein.

Dómsskjölin voru birt í gær, í tengslum við mál sem stendur yfir tengt Ghislaine Maxwell. Hún hefur verið sökuð um mansal með því að hafa séð Epstein og félögum hans fyrir ungum stúlkum til að misnota.

Ekki er um að ræða eiginlegan lista eins og rætt hefur verið um í fjölmiðlum síðustu daga og vikur, heldur koma nöfn vina og kunningja Epstein oftast fram í vitnisburðum gegn Epstein. Gögnin telja um 900 blaðsíður en fleiri verða birt á næstu dögum.

Skjölin varða meðal annars Johönnu Sjoberg, sem greindi meðal annars frá því að Andrés hefði tekið um brjóst sitt þegar hann stillti sér upp fyrir mynd með henni og Virginiu Giuffre. Konungsfjölskyldan greiddi Giuffre milljónir í sátt árið 2022 eftir að hún sakaði Andrés um að hafa misnotað sig þegar hún var 17 ára.

Andrés hefur ávallt haldið því fram að hann sé saklaus og hafi aldrei hitt Giuffre.

Í gögnunum er einnig fjallað um Bill Clinton og Donald Trump en þeir eru þó ekki sakaðir um neitt ólöglegt. Eins og áður hefur komið fram segir í skjölunum að Clinton hafi ferðast nokkrum sinnum með einkaþotu Epstein.

Þá bar Sjoberg þess vitni að Epstein hefði eitt sinn tjáð henni að Clinton „vildi þær ungar“.

Trump er nefndur til sögunnar í tengslum við atvik þar sem ekki var hægt að lenda þotunni í New York og ákveðið var að lenda í Atlantic City í staðinn. „Frábært, við bjöllum í Trump,“ á Epstein þá að hafa sagt.

Sjoberg var spurð að því við yfirheyrslur hvort hún hefði einhvern tímann verið látinn nudda Trump, líkt og stúlkurnar voru gjarnan látnar gera við aðra vini Epstein, en hún svaraði neitandi.

Epstein svipti sig lífi í fangaklefa árið 2019 en Maxwell var dæmd í 20 ára fangelsi.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×