Erlent

Selenskí boðar stór­aukna vopna­fram­leiðslu á nýju ári

Atli Ísleifsson skrifar
Vólódómír Selenskí hefur hvatt Vesturlönd til að halda stuðningi sínum við Úkraínu áfram.
Vólódómír Selenskí hefur hvatt Vesturlönd til að halda stuðningi sínum við Úkraínu áfram. AP

Vólódómír Selenskí, forseti Úkraínu, hefur heitið því að eigin vopnaframleiðsla Úkraínumanna muni stóraukast á nýju ári.

Selenskí greindi frá þessu í nýársávarpi sínu til úkraínsku þjóðarinnar í gær. Sagði hann að Úkraínumenn myndu smíða milljón dróna hið minnsta á árinu 2024 sem yrðu notaðir í stríðsrekstrinum vegna innrásar Rússa í Úkraínu.

Árásir Rússa héldu áfram í gær þar sem fréttir hafa borist af því að fimm hafi látið lífið, annars vegar í Odesa í suðurhluta landsins og svo í Donetsk-héraði í austri.

„Á næsta ári mun óvinurinn finna fyrir heift innlendrar framleiðslu,“ sagði Selenskí í ávarpi sínu. Sagði hann að auk þess að framleiða rúmlega milljón dróna á nýju ári þá muni úkraínski herinn fá sendar F-16 orrustuþotur frá vestrænum bandamönnum sínum.

„Orrustuflugmenn okkar eru nú þegar að ná góðum tökum á F-16 og við munum klárlega sjá þær í loftrými okkar,“ sagði Selenskí sem hvatti jafnframt Vesturlönd til að halda stuðningi sínum við Úkráinu áfram á nýju ári.

Rússar hafa sett aukinn kraft í árásir sína í Úkraínu á síðustu dögum. Rússneski herinn stóð fyrir samhæfðum árásum víða um Úkraínu á föstudag þar sem 39 létu lífið í höfuðborginni Kænugarði og var árásunum lýst sem umfangsmestu loftárásum Rússa á úkraínsku höfuðborgina frá upphafi innrásar. 

Úkraínuher svaraði árásunum með loftárásir á borgina Belgorod í suðvesturhluta Rússlands. Er talið að 24 hafi látist og á annað hundrað hafi særst í þeim árásum.


Tengdar fréttir

Tugir særðir í hefndar­að­gerðum Rússa

Rússar gerðu loftárásir á Úkraínu í nótt og nokkrir tugir eru særðir. Árásirnar eru hefndaraðgerðir Rússa eftir að tuttugu og fjórir féllu í umfangsmikilli árás Úkraínu á rússnesku borgina Belgorod í gær. Hún er að sögn rússneskra stjórnvalda sú versta á Rússland frá upphafi stríðsins.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×