Erlent

Segir hatursfulla um­ræðu ekki hafa haft neitt að gera með stjórn­málin

Rafn Ágúst Ragnarsson skrifar
Sanna segir það vera synd að ungar konur sjái slíka kynbundna umræðu og að það dragi úr löngun þeirra til að fara í stjórnmál.
Sanna segir það vera synd að ungar konur sjái slíka kynbundna umræðu og að það dragi úr löngun þeirra til að fara í stjórnmál. EPA/Kimmo Brandt

Sanna Marin fyrrverandi forsætisráðherra Finnlands segir margar ungar konur velta fyrir sér að fara í stjórnmál en hika við það vegna hatursfullar umræðu á samfélagsmiðlum.

Sanna vakti athygli í fyrrasumar þegar myndbönd af henni að skemmta sér með vinum sínum fóru í dreifingu á internetið. Í kjölfar lekans logaði samfélagsumræðan í Finnlandi og kallað var eftir afsögn hennar úr embætti. Hún segir að aðkastið sem hún varð fyrir á sínum tíma hafa verið grimmt og kynbundið.

Snerist um útlit

Sanna heldur því fram að fjaðrafokið varðandi myndefnið sem var lekið hafi ekki haft neitt að gera með stjórnmálaferil hennar eða skoðanir. Hún segir viðbrögð ýmissa aðila hafa haft meira að gera með útlit hennar heldur en hvernig hún stytti sér stundir.

„Ég var of ungleg í útliti, ég leit of kynferðislega út í myndböndunum. Og sumir kunnu ekki að meta það,“ segir hún í viðtali við norska ríkismiðilinn NRK.

Synd og skömm

Hún segir það vera synd og skömm að ungar konur sjái slíka kynbundna umræðu og að það dragi úr löngun þeirra til að fara í stjórnmál eða að hafa áhrif á stjórn landsins þar sem þær eigi fullt erindi til þess.

Sanna yfirgaf finnsk stjórnmál í kjölfar ósigurs í kosningum í vor og segist ekki hyggja á að snúa aftur þangað. Í september tók hún við nýju starfi hjá Stofnun Tony Blair en markmið stofnunarinnar er sagt vera að þróa pólitískar hugmyndir öllum þjóðum heims til hagsbóta. Stofnunin er staðsett í London og er óhagnaðardrifin.


Tengdar fréttir

Sanna Marin hverfur af þingi

Sanna Marin, fyrrverandi forsætisráðherra Finnlands, hefur sagt af sér þingmennsku. Sanna, sem hefur setið á þingi fyrir Jafnaðarmannaflokkinn, hefur ráðið sig í starf hjá Stofnun Tony Blair.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×