Erlent

Hútar lýsa yfir á­byrgð á eldflaugaárás í Rauða­hafi

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Bandaríska herskipið USS Carney sem staðsett hefur verið á Rauðahafi síðustu vikur.
Bandaríska herskipið USS Carney sem staðsett hefur verið á Rauðahafi síðustu vikur. AP

Vígasamtök Húta í Jemen hafa lýst yfir ábyrgð á eldflaugaárás sem gerð var á flutningaskip í Rauðahafi fyrr í dag. Þá lýstu samtökin yfir ábyrgð á tilraun til drónaárásar á Ísrael.

Mikil spenna hefur verið á Rauðahafi að undanförnu en Hútar hafa gert nær linnulausar árásir á flutninga- og herskip á hafinu síðan í október.

Leiðtogar Húta tilkynntu í annarri viku desember að skotið yrði á öll skip sem siglt er um Rauðahaf til Ísraels, nema þeim yrði einnig siglt til Palestínu með neyðaraðstoð fyrir íbúa þar.

Hútar hafa meðal annars skotið á norskt tankskip og líberískt flutningaskip síðan þá. Nú í morgun skutu Hútar á skipið United VIII, sem er í eigu svissnesk-ítalska fyrirtækisins MSC Mediterranean Shipping. Að sögn félagsins slasaðist enginn skipverja í árásinni en skipið var á leið frá Sádi-Arabíu til Pakistan.

Um svipað leyti varð Ísrael fyrir eldflaugaárás, sem landið náði þó að verjast, af Rauðahafi. Yahya Sarea, talsmaður hersveita Húta, sagði í sjónvarpsávarpi síðar í dag að Hútar bæru ábyrgð á árásunum tveimur. 

Rauðahafið er ein fjölfarnasta siglingarleið heims og hefur aðgengi að hafinu í gegnum tíðina verið beitt í pólitískum tilgangi. Hafið tengir Arabíuhaf í suðri og Miðjarðarhafið í norðri, með aðstoð Súes-skurðarins sem liggur frá Miðjarðarhafi í Rauðahaf.


Tengdar fréttir

Bandarískt herskip skaut niður fjórtán dróna Húta

Bandarískt herskip skaut fjórtán dróna niður yfir Rauðahafi í dag. Auk þess skaut breskt herskip dróna niður sem miðað var á vöruflutningaskip. Um er að ræða umfangsmikla en misheppnaða árás Húta í Jemen en flaugunum var skotið frá yfirráðasvæði þeirra. 

Enn eitt skipið fyrir eldflaug á Rauðahafi

Enn eitt flutningaskipið varð fyrir eldflaug á Rauðahafi í gærkvöldi. Eldflauginni mun hafa verið skotið frá yfirráðasvæði Húta í Jemen, eins og öðrum eldflaugum, en eldur kom upp í skipinu þegar eldflaugin hæfði það.

Norskt tankskip varð fyrir eldflaug frá Hútum

Norska tankskipið Strinda varð í gærkvöldi fyrir eldflaug sem skotið var af Hútum í Jemen. Hútar hafa heitið því að stöðva ferð allra skipa sem siglt er til Ísrael og hafa gert árásir á fjölda skipa á undanförnum dögum.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×