Íslenski boltinn

Víkingur slítur við­ræðum við Norrköping

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Arnar Gunnlaugsson  er ekki á leiðinni til Norrköping að óbreyttu.
Arnar Gunnlaugsson  er ekki á leiðinni til Norrköping að óbreyttu. vísir/Sigurjón

Arnar Gunnlaugsson er ekki að fara til sænska félagsins Norrköping eftir allt saman því Víkingur hefur slitið viðræðunum

Stjórn knattspyrnudeildar Víkings hefur hafnað tilboði sænska úrvalsdeildarliðsins Norrköping í Arnar Gunnlaugsson þjálfara meistaraflokks karla. Jafnframt hefur félagið slitið viðræðum við sænska félagið.  Núgildandi samningur Arnars við Víkinga gildir til næstu tveggja ára.

Eftir viðræður síðustu daga kom í ljós að töluvert bar á milli félaganna. 

„Tilboð Norrköping var ekki nálægt því sem við teljum virði Arnars Gunnlaugssonar vera. Því ákvað félagið að afþakka frekari samningaviðræður og setja allan fókus á undirbúning fyrir næsta tímabil. Arnar er afar fær þjálfari og mikilvægur okkur Víkingum og er ég afar spenntur fyrir áframhaldandi samstarfi með Arnari,“ sagði Kára Árnason, yfirmaður knattspyrnumála hjá Víking, í viðtali við heimasíðu Víkings.

Arnar hefur verið aðalþjálfari Víkings frá haustinu 2018 og undir hans stjórn hefur liðið unnið fjóra síðustu bikarmeistaratitla og tvo Íslandsmeistaratitla. Liðið vann tvöfalt bæði í ár og árið 2021.

Norrköping var með fleiri kandídata í huga og fundaði til að mynda einnig með Jóhannesi Karli Guðjónssyni, aðstoðarlandsliðsþjálfara, en ákvað svo að setja fókusinn á Arnar. Nú virðist hins vegar útséð með að Arnar verði næsti þjálfari félagsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×