Erlent

Berg­hlaup á Græn­landi gæti hafa valdið 280 metra hárri flóð­bylgju

Kristján Már Unnarsson skrifar
Myndin sýnir sex kílómetra breitt og eittþúsund metra hátt belti berghlaupsins.
Myndin sýnir sex kílómetra breitt og eittþúsund metra hátt belti berghlaupsins. Kristian Svennevig/GEUS

Berghlaup sem varð við vesturströnd Grænlands við lok síðustu ísaldar er það stærsta sinnar tegundar sem vitað er um á jörðinni. Vísindamönnum reiknast til að það gæti hafa valdið 280 metra hárri flóðbylgju í 25 kílómetra fjarlægð.

Grein um berghlaupið birtist í bandaríska vísindaritinu Geology í síðustu viku en að henni stendur alþjóðlegt rannsóknarteymi níu vísindamanna. Aðalhöfundurinn, jarðfræðingurinn Kristian Svennevig, er yfirmaður hjá GEUS í Kaupmannahöfn, Jarðfræðistofnun Danmerkur og Grænlands.

Berghlaupið varð fyrir um tíu þúsund árum á norðurströnd Diskó-eyjar. Risastór bergfyllan féll út í Vaigat-sund milli eyjunnar og meginlands Grænlands. Í viðtali á heimasíðu GEUS við Kristian Svennevig kemur fram að vísindamennirnir hafi fundið ummerki um níu stór berghlaup á svæðinu.

Þessi skýringarmynd birtist með vísindagreininni í Geology og sýnir hvar berghlaupið stóra varð.

„Greining okkar sýnir að það stærsta er 8,4 rúmkílómetrar að stærð, sem er algjörlega óskiljanlegt. Það er meira en eitthundrað sinnum stærra en þau berghlaup sem við höfum séð á síðustu hundrað árum og alls ekki eitthvað sem við áttum von á að finna,“ segir Kristian í viðtalinu.

Þar segir að berghlaupið sé líklega það stærsta sem valdið hafi flóðbylgju sem vitað sé um á jörðinni, að frátöldum þeim sem verða á eldfjöllum. Útreikningar sýni að það gæti hafa framkallað allt að 280 metra háa flóðbylgju í 25 kílómetra fjarlægð. Skriðan barst fimmtán kílómetra út í sjó.

Þessi skriða féll árið 2021 á sömu slóðum á Grænlandi og sýnir vel aðstæður.Gregor Lützenberg/Kaupmannahafnarháskóli

Til samanburðar má geta þess að Öskjuhlíð er 61 metra há og Úlfarsfell er 296 metra hátt. Flóðbylgja af þessari stærð hefði þannig náð hærra en öll byggð á Reykjavíkursvæðinu.

Þetta svæði á Diskó-eyju er ekki fjarri Karrat-firði þar sem mannskætt berghlaup varð árið 2017. Þá fórust fjórir einstaklingar þegar flóðbylgja skall á þorpunum Uummannaq og Nuugaatsiaq og 170 manns þurftu að yfirgefa heimili sín.

Flóðbylgja sópaði með sér öllu lauslegu þegar hún gekk á land í Nuugaatsiaq í júní árið 2017. Hluti úr fjallshlíð hrundi út í fjörð og olli flóðbylgjunni. Fjórir fórust.Vísir/EPA

„Til að skilja framtíðina verðum við að horfa aftur í tímann,“ segir Kristian Svennevig. Með væntanlegri hækkun hitastigs á norðurslóðum í tengslum við loftslagsbreytingar verði að gera ráð fyrir að skriðuföllum muni fjölga. Þess vegna verði að líta enn lengra aftur í tímann til að skilja hvað geti gerst í framtíðinni þar sem loftslagsaðstæður eigi sér engin sögulegt fordæmi, segir Kristian.

Berghlaup kallast það þegar stórar fjallssneiðar falla niður en þau finnast víða hérlendis. Þau stærstu og þekktustu eru Vatnsdalshólar og Hraun í Öxnadal.


Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×