Erlent

Penn glatar 100 milljón dala gjöf vegna svara for­setans um þjóðar­morð

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Svör Magill fyrir þingnefndinni hafa vakið mikla reiði.
Svör Magill fyrir þingnefndinni hafa vakið mikla reiði. AP/Mark Schiefelbein

University of Pennsylvania í Bandaríkjunum hefur tapað 100 milljón dala gjöf eftir vitnisburð forseta skólans fyrir þingnefnd á þriðjudag. 

Elizabeth Magill, Claudine Gay, forseti Harvard, og Sally Kornbluth, forseti MIT, mættu saman fyrir þingnefndina og svöruðu spurningum um gyðingaandúð í háskólum.

Það vakti mikla reiði þegar allar komu sér undan því að svara því hvernig viðurlögum yrði háttað gegn þeim nemendum sem kölluðu eftir þjóðarmorði í gyðingum.

Vaxandi spennu hefur gætt í háskólum í Bandaríkjunum í kjölfar árása Hamas á Ísrael og árásir Ísraelsmanna á Gasa. Efnt hefur verið til fjölda mótmæla.

Ross Stevens, stofnandi og framkvæmdastjóri Stone Ridge Asset Management greindi frá því í erindi til skólans að honum hefði ofboðið svör Magill fyrir þingnefndinni og að hann teldi sig nú í fullum rétti að afturkalla gjöf sína til Penn; 100 milljónir dala í hlutabréfum í Stone Ridge.

Penn, eins og skólinn er jafnan kallaður, er einn elsti háskóli Bandaríkjanna og í deild með skólum á borð við Harvard, Yale og Columbia. Þá er Wharton, einn virtasti viðskiptaháskóli heims, starfræktur við Penn.

Framganga forsetanna fyrir þingnefndinni hefur, líkt og fyrr segir, vakið mikla reiði. Allir komu sér undan því að svara spurningu þingkonunnar Elise Stefanik, sem spurði hvort það bryti gegn reglum skólanna ef nemendur kölluðu eftir þjóðarmorði á gyðingum.

Sagðist hún vilja já eða nei svar en forsetarnir komu sér undan því og sögðu, hver á sinn hátt, að samhengið skipti máli. 

Magill hefur sent frá sér myndskeið þar sem hún biðst afsökunar á svörum sínum en segist hafa verið að einblína á reglur skólans, sem séu til samræmis við stjórnarskrá landsins. Þannig sé ekki refsivert að nýta sér málfrelsið.

Þess í stað hefði hún átt að sjá og endurspegla það í svörum sínum að það að kalla eftir þjóðarmorði á gyðingum væri að hvetja til hræðilegasta ofbeldisins sem maðurinn væri fær um að fremja.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×