Fótbolti

„Átti erfitt með að anda því mér var svo kalt í fyrri hálf­leik en við vorum sjóð­heitar“

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Karólína Lea skoraði sigurmarkið í Viborg.
Karólína Lea skoraði sigurmarkið í Viborg. ANP/Getty Images

„Tilfinningin er frábær, geggjað að vinna Dani eftir að þær byrjuðu á flugeldasýningu fyrir framan okkur,“ sagði Karólína Lea Vilhjálmsdóttir, markaskorari Íslands, eftir frækinn 1-0 sigur á Viborg í Þjóðadeild UEFA í kvöld.

Ísland vann 1-0 sigur í Viborg en hitastigið var nær alkuli heldur en eitthvað annað og leikmenn Íslands flestar búnar að vefja utan um sig teppi á leið sinni inn í klefann. Það var þó ljóst að flugeldasýning Dana í upphafi leiks kveikti í íslenska liðinu sem sá til þess að þær dönsku voru ekki með neina flugeldasýningu inn á vellinum.

„Við ætluðum inn í þennan leik til að vinna og ekkert annað. Sýndum góða frammistöðu í dag og sigldum þessu heim.“

„Ég átti erfitt með að anda því mér var svo kalt í fyrri hálfleik en við vorum sjóðheitar samt sem áður. Fanney (Inga Birkisdóttir) frábær í markinu, mikið hrós á hana. Varnarlínan hélt gríðarlega vel og svo vorum við oft góðar á boltann svo ég er gríðarlega stolt af mínu liði.“

„Það var gaman (að skora sigurmarkið). Steini (Þorsteinn Halldórsson, landsliðsþjálfari) sagði við mig í hálfleik að ég myndi skora ef ég ætti eitt skot í viðbót, var búin að klúðra einhverjum færum í fyrri hálfleik. Gríðarlega gaman að skora loksins, langt síðan ég skoraði fyrir Ísland.“

„Ég er búin á því. Nú er endurheimt fyrir risaleik með Bayer Leverkusen á mánudaginn. Mætum Bayern Munchen sem verður gríðarlega sérstakur leikur en ég er góð,“ sagði Karólína Lea – leikmaður Bayern sem er á láni hjá Leverkusen - um stöðuna á sér en hún fór tvívegis niður meidd í leiknum.

Að lokum var Karólína Lea spurð um komandi jólafrí og þó hún elski fótbolta þá fagnar hún smá pásu.

„Ég ætla að njóta í botn. Ég elska að spila fótbolta og búin að njóta þess mikið að fá mikinn spiltíma en ég ætla að njóta vel að vera í fríi.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×