Fótbolti

„Ef maður skoðar allt árið finnst mér liðið vera í þróun og þroska“

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Þorsteinn Halldórsson, þjálfari íslenska landsliðsins.
Þorsteinn Halldórsson, þjálfari íslenska landsliðsins. Joris Verwijst/Getty Images

„Hlýtur að vera, við erum með sex stig úr þessum glugga og frábært að vinna,“ sagði Þorsteinn Halldórsson, landsliðsþjálfari kvenna í knattspyrnu, aðspurður hvort þetta væri fullkominn endir á árinu en lið hans lagði Danmörku ytra í Þjóðadeild UEFA í kvöld.

Ísland vann frækinn 1-0 sigur í Viborg í kulda sem þekkist var á hálendi Íslands. Íslenska liðið lagði mikið í leikinn og uppskar eftir því. Sigurinn kom í veg fyrir að Danmörk ynni riðilinn sem gerir liðinu erfiðara fyrir að komast á Ólympíuleikana. Ísland er hins vegar á leið í umspil að halda sæti sínu í A-deild Þjóðadeildar sem gæti skipt sköpum upp á næsta Evrópumót.

„Gerðum margt vel í þessum leik, auðvitað lágu þær á okkur og vissu að þær yrðu að vinna, voru að þrýsta en við stóðumst það og gerðum vel. Fengu eitt alvöru dauðafæri en annars var þetta klafs inn í teig,“ bætti Þorsteinn við.

„Margt sem gekk upp en ýmislegt sem við lentum í vandræðum með í færslum. Sérstaklega í fyrri hálfleik, breyttu út frá því sem þær hafa verið að gera og voru að toga okkur til. Náðum aðeins að laga það svo þær voru ekki að gera það í seinni hálfleik sem gerði það að verkum að þær áttu auðveldara með að gefa fyrir. Það er það sem við erum góðar í að verjast, vorum því ekki hræddar við það.“

Fanney Inga Birkisdóttir stóð vaktina í marki Íslands en þessi 18 ára markvörður Vals var að spila sinn fyrsta A-landsleik.

„Hún er 18 ára í aldri en hún er þrítug í hugsun og ró.“

Þorsteinn var að endingu spurður út í árið sem er að líða en það hefur gengið á ýmsu hjá Íslandi. Lykilleikmenn lagt skóna á hilluna, aðrar óléttar og enn aðrar að glíma við meiðsli.

„Er mjög sáttur við árið. Byrjum það vel, þetta er að þróast og svo byrja allar breytingarnar í hverjum einasta glugga. Við tökumst á við það og mér fannst liðið vera í réttri þróun allan tímann. Prófuðum ýmsa hluti, sumt gekk vel en annað misvel. Auðvitað fengum við skell út í Þýskalandi sem allir eru alltaf að tala um en heilt yfir ef maður skoðar allt árið finnst mér liðið vera í þróun og þroska. Það er ekkert auðvelt að missa þúsund landsleiki út úr einu landsliði á nokkrum mánuðum án þess að það taki smá tíma að byggja eitthvað upp.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×