Erlent

Dular­fullt hvarf skila­boða John­son enn ó­út­skýrt

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Johnson mætir fyrir rannsóknarnefndina í morgun. Hann hefur neitað því að hafa eytt skilaboðunum.
Johnson mætir fyrir rannsóknarnefndina í morgun. Hann hefur neitað því að hafa eytt skilaboðunum. AP/PA Wire/Jordan Pettitt

Vitnaleiðslur yfir Boris Johnson, fyrrverandi forsætisráðherra Bretlands, hefjast í dag í tengslum við yfirstandandi rannsókn á framgöngu stjórnvalda í kórónuveirufaraldrinum.

Rannsóknin hefur staðið yfir í nokkurn tíma en vendingar urðu á málinu í gær þegar greint var frá því að ekki hefði tekist að nálgast WhatsApp-skilaboð forsætisráðherrans fyrrverandi sem send voru á tímabilinu þegar Covid-19 varð fyrst vart og fram yfir fyrstu samkomutakmarkanirnar.

Um er að ræða sex mánaða tímabil.

Johnson hefur neitað að hafa eytt skilaboðunum.

Það hefur tekið nokkurn tíma fyrir rannsóknarnefndina að komast yfir gögn málsins en ríkisstjórn Rishi Sunak neitaði í fyrstu að láta af hendi óritskoðuð samskipti Johnson, minnisbækur og dagbækur. Gögnin voru látin af hendi eftir dómsúrskurð.

Varðandi WhatsApp-skilaboðin bar Johnson því hins vegar við í fyrstu að hann gæti ekki nálgast þau þar sem þau væru geymd á gömlum síma og hann myndi ekki aðgangsorðið til að komast inn í hann. Með aðstoð tókst honum að komast inn í símann en ekki hefur tekist að endurheimta fyrrnefnd skilaboð.

Times greindi frá því í gær að þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir sérfræðinga hefði það enn ekki tekist. Haft er eftir Johnson að ástæður þess að ekki sé hægt að nálgast skilaboðin séu ókunnar. 

Vonir standa til að flest skilaboðanna séu til hjá þeim sem Johnson átti í samskiptum við.

Hér má finna umfjöllun Guardian um málið.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×