Erlent

Banda­ríkja­menn setja pressu á Kín­verja

Bjarki Sigurðsson skrifar
John Kerry, sérstakur sendiherra Bandaríkjaforseta í loftslagsmálum, og Xie Zhenhua, sérstakur sendiherra Kína í loftslagsmálum.
John Kerry, sérstakur sendiherra Bandaríkjaforseta í loftslagsmálum, og Xie Zhenhua, sérstakur sendiherra Kína í loftslagsmálum. AP/Kamran Jebreili

Það dró til stórra tíðinda í dag á Loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna þegar Bandaríkin hétu því að loka öllum kolaorkuverum sínum. Ísland er stofnmeðlimur loftslagshamfarasjóðs sem settur var á laggirnar í dag.

Loftslagsráðstefna Sameinuðu þjóðanna, COP28, hélt áfram um helgina en yfir 70 þúsund manns eru mættir til Dubai í Sameinuðu arabísku furstadæmunum til þess að taka þátt í ráðstefnunni, þar á meðal 84 frá Íslandi. Á ráðstefnunni fluttu ræður meðal annarra varaforseti Bandaríkjanna, forseti Frakklands, forsætisráðherra Indlands, konungur Bretlands og Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra Íslands.

Skiptir þátttaka Íslands máli?

Í ræðu sinni lagði forsætisráðherra áherslu á nauðsyn þess að ná fram markmiðum Parísarsamningsins um að takmarka hlýnun jarðar við 1,5 gráðu. Þá væri nauðsynlegt fasa út notkun á jarðefnaeldsneyti og hætta öllum niðurgreiðslum á því.

En skiptir þátttaka eyju með 400 þúsund íbúa máli á svona stórri ráðstefnu?

„Það skiptir máli að mæta, sýna hvað við erum að gera. Tala fyrir ákveðnum sjónarmiðum því hér sitja allir við sama borð þegar við erum að reyna að ná saman um markmið. Það skiptir máli að Ísland beiti sér af krafti. Við erum líka með ákveðin sjónarmið sem ekki allir eru að halda á lofti,“ segir Katrín.

Bandaríkin kveðja kolin

Stærstu tíðindin af ráðstefnunni í dag eru þau að stofnaður var loftslagshamfarasjóður en Ísland er eitt af stofnríkjum hans. Við munum leggja áttatíu milljónir króna til sjóðsins til að byrja með en stefnt er á að framlög stofnríkjanna nemi samtals 55 milljörðum króna.

Þá tilkynnti John Kerry, sérstakur sendiherra Bandaríkjaforseta í loftslagsmálum, að Bandaríkin hefðu gengið í Powering Past Coal-bandalagið. Bandaríkin skuldbinda sig þar með til þess að loka öllum kolaorkuverum sínum fyrir árið árið 2035. Þetta er sagt setja mikla pressu á Kínverja sem eru sú þjóð sem brennir hvað mest af kolum.

Fundarhöld í Dubai halda áfram næstu daga og lýkur ráðstefnunni formlega eftir tíu daga.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×