Innlent

Hent niður af svölunum af sam­nemanda

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Um er að ræða þó nokkra metra sem barnið féll.
Um er að ræða þó nokkra metra sem barnið féll. Vísir/Vilhelm

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hefur fall nemanda í Garðaskóla af svölum inni í íþróttahúsinu Ásgarði í Garðabæ í síðustu viku til rannsóknar. Nemandanum var hent niður af samnemanda.

Vísir greindi frá því í síðustu viku að nemandi hefði fallið niður af svölum íþróttahússins. Nemandinn lenti á fótunum, féll að hluta til á dýnu og fótbrotnaði. Samkvæmt heimildum fréttastofu var nemandanum hent niður af samnemanda. Sá er fimmtán ára.

Samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu er málið í rannsókn. Búið sé að ræða við töluverðan fjölda vitna en þeirri vinnu sé ekki lokið. Atvikið átti sér stað á afmælishátíð skólans og var því mikill fjöldi nemenda í íþróttahúsinu. Nemendur og kennarar þáðu margir áfallahjálp.

Lögreglan vill ekki veita frekari upplýsingar um málið en staðfestir þó að nemandinn sem hafi ýtt samnemandanum sínum sé sakhæfur. Samkvæmt heimildum fréttastofu hyggjast foreldrar drengsins leggja fram kæru vegna málsins. Lögreglan vildi ekki tjá sig um það þegar eftir því var leitað.

Áður hafði Vísir leitað viðbragða Jóhanns Skagfjörðs Magnússonar, skólastjóra Garðaskóla. Hann vildi ekki tjá sig um mál barnungra nemenda skólans. Í tölvupósti sem sendur var til foreldra kom fram að líðan barnsins sem hefði slasast væri eftir atvikum.

Þá sagði þar að margir nemendur hafi orðið vitni að atburðinum. Skólayfirvöld myndu ekki upplýsa frekar um aðdraganda slyssins.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×