Erlent

Karl og Katrín sögð hafa verið þau sem ræddu húð­lit Archie

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Scobie neitar því staðfastlega að hafa nefnt Karl og Katrínu í sambandi við umræður um húðlit Archie en þeirra var getið í hollensku útgáfu bókar hans um konungsfjölskylduna.
Scobie neitar því staðfastlega að hafa nefnt Karl og Katrínu í sambandi við umræður um húðlit Archie en þeirra var getið í hollensku útgáfu bókar hans um konungsfjölskylduna. Getty/WireImage/Karwai Tang

Omid Scobie, höfundur bókarinnar Endgame: Inside the Royal Family, segir rannsókn hafna á því hvernig Karl Bretakonungur og Katrín, prinsessan af Wales, voru nefnd í tengslum við umræðu um húðlit sonar Harry Bretaprins og Meghan, eiginkonu hans, í hollenskri útgáfu bókarinnar.

Harry og Meghan greindu frá því í viðtali við Opruh Winfrey að mögulegur húðlitur Archie, sonar þeirra, hefði verið ræddur innan konungsfjölskyldunnar eftir að þau tilkynntu að Meghan væri ólétt.

Þau hafa aldrei nefnt nein nöfn í þessu samhengi en að sögn Scobie hefur það löngum verið vitað meðal blaðamanna á Bretlandseyjum að um hafi verið að ræða Karl og Katrínu.

Hann segist hins vegar ekki hafa nefnt nöfnin í bók sinni og því vakti það furðu þegar greint var frá því að hollenska útgáfan hefði verið tekin úr dreifingu og upplaginu fargað sökum þess að Karl og Katrín væru nefnd til sögunnar.

Buckingham höll hefur neitað að tjá sig um málið.

Scobie hefur ítrekað að hann í bókinni tali hann aldrei um rasisma, heldur „ómeðvitaða fordóma“. Í hollensku útgáfunni kom fram að Meghan og Karl hefðu átt í bréfasamskiptum eftir að í ljós kom að Karl og Katrín hefðu tekið þátt í, greinilega óviðeigandi, samræðum um Archie.

Að sögn Scobie áttu Harry og Meghan enga aðkomu að ritun bókarinnar en hann hefur sagt að hann og Meghan eigi sameiginlega vini.

Vilhjálmur, prins af Wales, hefur neitað því að konungsfjölskyldan sé haldin fordómum.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×