Erlent

Vilja auka lög­mæti rann­sóknarinnar á Biden

Samúel Karl Ólason skrifar
Fimm af leiðtogum Repúblikanaflokksins sem koma hvað mest að rannsókn flokksins á meintum embættisbrotum Joe Biden. Frá Vinstri: Jim Jordan, Elise Stefanik, Mike Johnson, Tom Emmer og James Comer.
Fimm af leiðtogum Repúblikanaflokksins sem koma hvað mest að rannsókn flokksins á meintum embættisbrotum Joe Biden. Frá Vinstri: Jim Jordan, Elise Stefanik, Mike Johnson, Tom Emmer og James Comer. AP/J. Scott Applewhite

Repúblikanar í fulltrúadeild Bandaríkjaþings íhuga að halda formlega atkvæðagreiðslu í næsta mánuði um rannsókn á meintum embættisbrotum Joe Biden, forseta Bandaríkjanna. Með því eru þeir sagðir vilja festa rannsóknir þeirra á forsetanum og fjölskyldu hans í sessi og gefa henni meira lögmæti.

Þetta kom fram á lokuðum fundi þingflokksins í gær, samkvæmt fjölmiðlum vestanhafs. Tilefnið er að lögmenn Hvíta hússins hafa neitað að afhenda Repúblikönum gögn á þeim grundvelli að rannsókn þeirra skorti lögmæti.

Hingað til hafa Repúblikanar haldið því fram að formleg atkvæðagreiðsla um rannsókn á Biden sé óþörf en óljóst er hvort þeir hafi næg atkvæði fyrir atkvæðagreiðslu af þessu tagi. Fulltrúadeildin skiptist 222-213 milli flokka og ljóst þykir að enginn Demókrati myndi greiða atkvæði með tillögu um formlega rannsókn á Biden og fjölskyldu hans.

Repúblikanar í svokölluðum sveiflukjördæmum þar sem Biden sigraði í kosningunum 2020 gætu átt erfitt með að samþykkja rannsókn, þar sem slíkt gæti kostað þá í kosningum næsta árs. Átján þingmenn flokksins sitja í slíkum kjördæmum, samkvæmt Punchbowl News.

Þá hefur mikil óreiða ríkt innan Repúblikanaflokksins um langt skeið. Þingið var lengi lamað eftir að Kevin McCarthy var vikið úr embætti þingforseta og síðan þá hefur þingið litlu komið í verk, öðru en að fresta um tíma samþykkt nýrra fjárlaga.

Hafa litlum árangri náð á ári

Repúblikanar hafa meðal annars rannsakað hvort Joe Biden hafi hagnast af viðskiptum sonar hans, Hunter, á erlendri grundu. Rannsóknin fer fram í þremur nefndum þingsins og er leidd af þingmönnunum James Comer, sem leiðir eftirlitsnefnd þingsins, Jim Jordan, sem leiðir dómsmálanefndina, og Jason T. Smith, sem leiðir fjármálanefndina.

Fimm af leiðtogum Repúblikanaflokksins sem koma hvað mest að rannsókn flokksins á meintum embættisbrotum Joe Biden. Frá Vinstri: Jim Jordan, Elise Stefanik, Mike Johnson, Tom Emmer og James Comer.AP/J. Scott Applewhite

Rannsóknin hefur staðið yfir í tæpt ár og enn sem komið er hafa Repúblikanar ekki getað sýnt fram á neinar vísbendingar sem styðja ásakanir þeirra um að Biden hafi misnotað stöðu sína eða tekið við mútum.

Fyrsti opni nefndarfundur Repúblikana vegna rannsóknarinnar þótti ekki fara vel fyrir þá, þar sem þeirra eigin vitni grófu undan málflutningi þeirra. Repúblikanar birtu einnig á fundinum skilaboð milli James Biden, bróður Joe, og Hunter en tóku þau úr öllu samhengi.

Hluti skilaboðanna voru birt svo þau virtust gefa í skyn að spilling væri að eiga sér stað. Hins vegar voru James og Hunter að ræða það að Hunter gæti ekki greitt meðlag án aðstoðar föður síns. Hunter Biden var í mikilli fíkniefnaneyslu á þessum tíma og átti í miklum vandræðum.

Demókratar á þingi segja McCarthy og félaga vera að beita þinginu í kosningabaráttu Donalds Trump, fyrrverandi forseta, sem þykir líklegastur til að hljóta aftur tilnefningu Repúblikanaflokksins til forsetakosninganna á næsta ári.

Trump var tvisvar sinnum ákærður fyrir embættisbrot í forsetatíð sinni. Fyrst árið 2019 þegar hann bað Vólódímír Selenskí, forseta Úkraínu, um að rannsaka Joe Biden og gaf í skyn að annars myndi hann stöðva hernaðaraðstoð til Úkraínu. Hann var svo aftur ákærður árið 2021, vegna árásar stuðningsmanna hans á bandaríska þingið þann 6. janúar það ár.

Hann er eini forseti Bandaríkjanna sem hefur tvisvar sinnum verið ákærður fyrir embættisbrot og hefur hann verið mjög reiður yfir því. Trump hefur á undanförnum mánuðum ítrekað kallað eftir því að Biden verði einnig ákærður.

Demókratar segja einnig að með þessu vilji Repúblikanar setja samasemmerki milli Trumps og Bidens og grafa undan alvarleika þess að vera ákærður fyrir embættisbrot. Markmiðið sé að auðvelda kosningabaráttu Trumps.

Beina spjótum sínum að Hunter

Rannsókn Repúblikana hefur að miklu leyti snúist um Hunter Biden, son Joe Biden, og halda Repúblikanar því fram að Joe hafi hagnast á viðskiptum Hunters, eins og segir hér að ofan, þar sem Hunter notaði nafn sitt til að afla peninga erlendis.

David Weiss, sérstakur saksóknari dómsmálaráðuneytis Bandaríkjanna, hefur rannsakað Hunter Biden um nokkuð skeið en hefur eingöngu ákært hann fyrir að ljúga á eyðublaði vegna byssukaupa. Árið 2018 keypti Hunter Biden skammbyssu en hann var þá í mikilli neyslu fíkniefna og laug á eyðublaðinu að svo væri ekki.

Repúblikanar hafa gagnrýnt Weiss harðlega fyrir að hafa ekki ákært Hunter Biden fyrir önnur brot. Þeir hafa haldið því fram að dómsmálaráðherra Bidens hafi hindrað rannsóknina en sjálfur segir Weiss að svo sé ekki. Enginn hafi reynt að halda aftur af honum.

Sjá einnig: Segir engan hafa staðið í vegi rannsóknar á Hunter Biden

Saksóknarinn hafði einnig verið með Hunter til rannsóknar vegna skattsvika á árum áður, þegar hann var í neyslu, og náðist samkomulag milli saksóknara og lögmanna Hunters vegna þessa. Það samkomulag náði þó ekki fram að ganga þegar í ljós kom að saksóknarar og lögmenn Hunters voru ekki sammála um hvað samkomulagið fæli í sér.

Óheiðarleg framsetning á ávísunum

Repúblikanar héldu blaðamannfund í vikunni, þar sem þeir ætluðu að sýna fram á árangur í rannsókn þeirra á forsetanum og fjölskyldu hans.

James Comer, yfirmaður eftirlitsnefndar fulltrúadeildarinnar sagði á fundinum að Repúblikanar hefðu fundið vísbendingar um að Joe Biden hefði tekið við peningum sem hefðu verið þvættaðir í Kína frá mágkonu sinni. Þessir fjármunir hefðu verið fengnir af fjölskyldumeðlimum hans með því að hagnast á Biden-nafninu.

Í greiningu Washington Post segir að þetta sé óheiðarleg framsetning.

Þann 28. júlí 2017 sendi Joe Biden, sem þá var óbreyttur borgari og sat ekki í opinberu embætti, bróður sínum James og konu hans Söru fjörutíu þúsund dali. Nokkrum vikum síðar skrifaði Sara ávísun til Bidens upp á fjörutíu þúsund dali, sem á stóð endurgreiðsla láns.

Þann 3. janúar 2018 sendi Biden þeim hjónum aftur peninga og nú tvö hundruð þúsund dali. Það lán var endurgreitt, eins og það fyrra, nokkrum vikum síðar eða þann 1. mars.

Þessar endurgreiðslur eru fjármunirnir sem Comer segir að hafi verið þvættaðir í Kína.

Fjörutíu þúsund dala ávísunin til Bidens var skrifuð skömmu eftir að ráðgjafafyrirtæki sem James Biden leiðir fékk 150 þúsund dali frá félagi í eigu Hunters. Það félag hafði viku áður fengið fjögur hundruð þúsund dali sem taldir eru hafa komið að hluta til frá kínversku orkufyrirtæki.

Þegar Mike Johnson, nýr forseti fulltrúadeildarinnar, ræddi um ávísanirnar í gær tók hann jafnvel enn dýpra í árina en Comer.

Sjá einnig: Hefur lengi barist gegn réttindum „ónáttúrulegs“ hinsegin fólks

„Eftirlitsnefndin opinberaði nýverið tvær ávísanir,“ sagði hann. „Þessar ávísanir eru til Joe Biden. Önnur þeirra er fjörutíu þúsund dalir frá Kína.“

Mike Johnson, þinforseti, fyrir framan mynd af ávísun frá mágkonu Joe Biden sem Repúblikanar bendla við Kína. Glöggir lesendur geta séð að niðri vinstra megin á ávísuninni stendur: „Loan repayment“, eða endurborgun láns.AP/J. Scott Applewhite

Ávísunin var frá mágkonu Bidens og var endurgreiðsla á láni, eins og fram kemur hér að ofan. Joe Biden fékk ekki peningana frá Kína.

Enn að skoða Burisma

Rannsókn Repúblikana hefur einnig snúist að miklu leyti um viðskipti Hunters Biden í Úkraínu. Comer hefur krafist gagna frá utanríkisráðuneyti Bandaríkjanna um störf Bidens sem varaforseti í ríkisstjórn Baracks Obama. Hann sagðist vilja skilja það þegar Biden þrýsti á yfirvöld í Úkraínu á árum áður um að reka saksóknara sem heitir Viktor Shokin.

Repúblikanar hafa reglulega sakað Biden feðga um spillingu vegna orkufyrirtækisins Burisma, en Hunter sat í stjórn fyrirtækisins á árum áður. Repúblikanar saka Joe Biden um að hafa beitt sér til að reka saksóknara sem á að hafa verið að rannsaka Burisma vegna spillingar.

Það er rétt að Biden krafðist þess af yfirvöldum Úkraínu að ríkissaksóknarinn Viktor Shokin yrði rekinn. Það var þó vegna þess að hann þótti ekki berjast nægilega vel gegn spillingu í Úkraínu. Bakhjarlar Úkraínu í Bandaríkjunum, Evrópu og Alþjóðagjaldeyrissjóðnum, svo einhverjir séu nefndir, kölluðu allir eftir því að Shokin yrði rekinn. Meira að segja Repúblikanar studdu viðleitni Biden á sínum tíma.

Nokkrir öldungadeildarþingmenn Repúblikanaflokksins skrifuðu undir bréf sem sent var Petro Poroshenko, þáverandi forseta Úkraínu, árið 2016. Í því bréfi kölluðu þeir eftir „endurbótum“ á embætti ríkissaksóknara Úkraínu. Bréf þetta, sem finna má hér á vef bandaríska þingsins, var sent í febrúar 2016, skömmu áður en þingmenn í Úkraínu kusu að víkja ríkissaksóknaranum úr embætti.

Rob Portman, einn þingmannanna, birti meðfylgjandi tíst árið 2016 þar sem hann sagði Bandaríkin standa með Úkraínumönnum í baráttunni gegn spillingu.

Þetta var á sama tíma og Biden, sem var þá varaforseti Bandaríkjanna, þrýsti á stjórnvöld í Úkraínu um að koma saksóknaranum úr embætti, vegna þess að hann þótti ekki berjast gegn spillingu af nægilega miklum krafti og var jafnvel sjálfur sakaður um spillingu.

Sjá einnig: Repúblikanar vildu einnig láta reka saksóknarann úkraínska

Ríkisstjórnir nokkurra ríkja og forsvarsmenn stofnanna sem aðstoðuðu Úkraínu á þessum tíma með fjárveitingum og öðrum hætti vildu Shokin burt. Biden hafði farið til Úkraínu í desember 2015 og í ræðu á þingi landsins kallaði hann eftir brottrekstri Shokin.

Vill opinn nefndarfund

Lögmaður Hunters Biden sendi James Comer bréf á dögunum þar sem hann sagði Hunter tilbúinn til að mæta á fund eftirlitsnefndar. Hann myndi þó eingöngu mæta á opinn nefndarfund, svo Repúblikanar gætu ekki sagt ósatt til um hvað hann segði á lokuðum fundi.

Abbe D. Lowell, áðurnefndur lögmaður, sagði í bréfinu að Comer hefði notað lokaða nefndarfundi til að afvegaleiða almenning um hvað vitni nefndarinnar hefðu sagt í raun og veru. Þess vegna vildi Hunter mæta á opinn fund.

Comer og aðrir Repúblikanar hafa þverneitað því að halda opinn fund að svo stöddu. Þeir segja Hunter þurfa að mæta fyrir nefndina á lokuðum fundi. Seinna meir yrði hægt að halda opinn fund.

„Í yfirlýsingu sagði Comer að Hunter Biden væri að reyna að spila eftir eigin reglum í stað þess að fylgja sömu reglum og aðrir. Hann yrði að mæta á fund nefndarinnar þann 13. desember, þar sem honum hefði verið stefnt af nefndinni.

Jim Jordan í pontu á blaðamannafundi í gær. Á fundinum var merki rannsóknar Repúblikana á meintum brotum Joe Biden í embætti kynnt. Það má sjá framaná púltinu.AP/J. Scott Applewhite

Jim Jordan, sem leiðir einnig rannsóknina með Comer tók undir það á X, áður Twitter. Þegar þingnefndin sem rannsakaði árásina á þinghúsið þann 6. janúar árið 2021 stefndi þingmönnum Repúblikanaflokksins og boðaði þá á fund, neituðu fjórir þeirra. Jordan þeirra á meðal.

Óljóst er hvort Hunter muni mæta á fundinn 13. desember eða ekki.


Tengdar fréttir

„Þetta er ekki kosningafundur“

Donald Trump, fyrrverandi forseti Bandaríkjanna, skammaðist yfir því að illa væri komið fram við hann og að pólitískir andstæðingar hans væru að nota dómskerfið gegn honum. Dómarinn skammaði Trump og sagði að hann væri ekki á kosningafundi heldur í dómsal.

Trump með forskot á Biden í fimm af sex lykilríkjum

Donald Trump, fyrrverandi Bandaríkjaforseti, er með forskot á Joe Biden Bandaríkjaforseta í fimm af sex lykilríkjum í aðdraganda forsetakosninganna á næsta ári, ef marka má skoðanakönnun New York Times og Siena College.

Trump klikkar meira og gæti misst eitt sitt besta vopn

Donald Trump, fyrrverandi forseti Bandaríkjanna og núverandi forsetaframbjóðandi, og stuðningsmenn hans gera iðulega grín að háum aldri Joe Biden, núverandi forseta og forsetaframbjóðanda. Trump er þó einungis þremur árum yngri en Biden og gerir sjálfur reglulega mistök.

Tuttugu Repúblikanar greiddu atkvæði gegn Jordan

Tuttugu þingmenn Repúblikanaflokksins greiddu í gær atkvæði gegn því að Jim Jordan yrði næsti forseti fulltrúadeildar Bandaríkjaþings. Jordan er þó borubrattur og stefnir á aðra atkvæðagreiðslu seinna í dag.

Sótt að Biden vegna nýrra fram­kvæmda við landa­mæram­úrinn

Þingmenn bæði úr röðum Repúblikana og Demókrata hafa gagnrýnt Joe Biden Bandaríkjaforseta eftir að stjórn hans tilkynnti að grænt ljós hefði verið gefið á framkvæmdir við byggingu nýs kafla af múrnum á landamærunum að Mexíkó. Umræddur kafli er rúmlega þrjátíu kílómetrar að lengd og að finna á strjálbýlu svæði í Texas.

Repúblikanar herða tökin í mikilvægum ríkjum

Repúblikanar í Wisconsin og Norður-Karólínu í Bandaríkjunum vilja breyta því hvernig kosningum er stjórnað í ríkjunum. Bæði ríkin eru svokölluð sveifluríki og þykja því gífurlega mikilvæg þegar kemur að forsetakosningunum á næsta ári.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×