Innlent

Taka upp sjálf­virkt meðal­hraða­eftir­lit í Dýra­fjarðar­göngum

Atli Ísleifsson skrifar
Dýrafjarðargöng opnuðu formlega í október 2020.
Dýrafjarðargöng opnuðu formlega í október 2020. Vísir/Hafþór Gunnarsson

Sjálfvirkt meðalhraðaeftirlit verður tekið upp í Dýrafjarðargöngum á fimmtudaginn. Markmið eftirlitsins er að auka umferðaröryggi. 

Á vef Vegagerðarinnar segir að sjálfvirkt hraðaeftirlit sé ein af megináherslum í umferðaröryggisáætlun stjórnvalda. Hraðamyndavélar séu fyrst og fremst settar upp á köflum þar sem slys séu mörg, en einnig sé lögð áhersla á að setja slíkan búnað upp í jarðgöngum til að draga úr líkum á að slys verði.

„Sjálfvirkt meðalhraðaeftirlit byggir á því að meðalhraði ökutækis sem fer tiltekna vegalengd er reiknaður út með því að deila í vegalengdina með tíma. Þá vinna tvær myndavélar saman fyrir hvora akstursstefnu, þar sem önnur er staðsett í byrjun kaflans en hin í enda kaflans. 

Teknar eru myndir af öllum ökutækjum og búnaðurinn greinir hversu lengi ökumaður var að aka á milli myndavélanna og reiknar þannig út meðalhraða ökutækisins á kaflanum. Ef útreiknaður hraði er meiri en leyfilegt er telst viðkomandi ökumaður brotlegur og eftir það sér lögregla um frekari úrvinnslu og sektarboð. Öll gögn eru dulkóðuð og myndir af þeim sem ekki eru brotlegir eyðast sjálfkrafa í myndavélunum. Skilti sem gefa eftirlitið til kynna hafa verið sett upp beggja vegna ganganna.

Vegagerðin ber ábyrgð á tæknilegri framkvæmd eftirlitsins, en Ríkislögreglustjóri ber ábyrgð á úrvinnslu og innheimtu sekta,“ segir á vef Vegagerðarinnar.


Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×