Erlent

Hæsti­réttur segir stjórn­völdum ekki heimilt að flytja fólk til Rúanda

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Dómur í málinu var kveðinn upp fyrir stundu.
Dómur í málinu var kveðinn upp fyrir stundu. AP/Kirsty Wigglesworth

Hæstiréttur Bretlands hefur úrskurðað að stjórnvöldum sé ekki heimilt að flytja hælisleitendur til Rúanda. Hæstiréttur staðfesti ákvörðun undirréttar, sem sagði meðal annars hættu á að fólk yrði sent þaðan til heimalands síns þar sem það sætti ofsóknum.

Niðurstaðan er verulegt högg fyrir ríkisstjórn Rishi Sunak, sem hefur farið nokkuð hart fram í málefnum hælisleitenda og meðal annars heitið því að „stöðva bátana“. Er þar vísað til ferða hælisleitenda til Bretlands um Ermasund.

Fyrirætlanir stjórnvalda um að flytja fólk til Rúanda áttu að fæla fólk frá því að leita yfir Ermasundið yfir höfuð en þær hafa verið gagnrýndar af hjáparsamtökum, sem segja þær ekki munu hafa tilætluð áhrif.

Sunak hefur einnig sætt gagnrýni eigin samflokksmanna en Suella Braverman, sem Sunak vék úr embætti innanríkisráðherra á mánudag, birti í gær harðort bréf þar sem hún sagði forsætisráðherrann hafa svikið samkomulag um að gera lagabreytingar til að tryggja að áætlanir stjórnvalda stæðust lög.

Sunak hefði ekkert „plan B“ og ef Hæstiréttur kæmist að þeirri niðurstöðu sem hann hefur nú komist að væru stjórnvöld búin að eyða ári í ekki neitt og komin aftur á upphafsreit í málefnum hælisleitenda.

Hópur þingmanna Íhaldsflokksins mun funda í dag og ræða niðurstöðuna en fastlega er gert ráð fyrir að þeir muni í kjölfarið krefjast þess að Bretar segi sig frá Mannréttindadómstól Evrópu til að geta ráðið því hvernig þeir haga málaflokknum.


Tengdar fréttir

Sunak lætur innanríkisráðherrann fjúka

Breskir fjölmiðlar greindu frá því nú fyrir stundu að Rishi Sunak, forsætisráðherra Bretlands, hefði ákveðið að láta innanríkisráðherrann Suellu Braverman víkja.

Flutningur hælis­leit­enda til Rúanda dæmdur ó­lög­legur

Breskur áfrýjunardómstóll komst að þeirri niðurstöðu að Rúanda teldist ekki öruggt ríki og því væru áform stjórnvalda um að senda hælisleitendur þangað ólögleg í dag. Dómarar töldu verulega hættu á að hælisleitendur væru sendir til heimalands síns þaðan.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×