Innlent

Sig og sprungur við í­þrótta­húsið: „Þetta er það versta sem við höfum séð í dag“

Lillý Valgerður Pétursdóttir og Helena Rós Sturludóttir skrifa
Stórar sprungur hafa myndast á nokkrum stöðum í bænum þar á meðal við íþróttahúsið.
Stórar sprungur hafa myndast á nokkrum stöðum í bænum þar á meðal við íþróttahúsið. Vísir/Vilhelm

Miklar skemmdir hafa orðið við íþróttahúsið í Grindavík. Þar hafa stórar sprungur opnast og jörð sigið töluvert. Björgunarsveitarfólk kannaði aðstæður á svæðinu í dag.

„Þetta er það versta sem við höfum séð í dag,“ segir Guðmundur Óli Gunnarsson hjá Hjálparsveit skáta í Garðabæ. 

Hægt er að sjá myndband af svæðinu og viðtal við Guðmund hér fyrir neðan. 

Hann segir að svo virðist sem enn þá sé hreyfing á svæðinu. „Mér skilst á þeim sem að hafa verið hérna undanfarið að það séu enn þá hreyfingar á þessu.“

Þá hefur myndast sigdalur við íþróttahúsið. Guðmundur telur jörð hafa sigið þar um einn til tvo metra.

„Þar sem að áður var bara slétt plan, sléttar flatir, það eru bara komnar brekkur í þetta.

Guðmundur Óli Gunnarsson er einn þeirra björgunarsveitarmanna sem farið hafa um svæðið í dag.Vísir/Vilhelm

Þá telur hann ekki öruggt fyrir fólk að vera á svæðinu og mikilvægt að þeir sem fara til að sækja dót í hús sín dvelji þar í sem skemmstan tíma.


Tengdar fréttir

Myndir úr Grindavík: Miklar skemmdir í bænum

Grindvíkingum hefur verið hleypt inn í bæinn í morgun og í dag til að sækja eigur sínar. Vilhelm Gunnarsson, ljósmyndari Vísis, fór einnig til Grindavíkur.

Inn á tíu mínútum og út aftur

Hjálmar Hallgrímsson vettvangsstjóri segir ganga ágætlega að hleypa fleira fólki inn í Grindavík. Skipulagsbreytingar hafi verið gerðar sem geri ráð fyrir að hraðar gangi að hleypa fleirum inná svæðið en áður var.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×