Innlent

Á leiðinni til Grinda­víkur eftir að hafa misst móður sína á fimmtu­daginn

Árni Sæberg skrifar
Ragna Kristín segist vera dofin og í áfalli eftir að Grindavík var rýmd.
Ragna Kristín segist vera dofin og í áfalli eftir að Grindavík var rýmd. Stöð 2/Sigurjón

Ragna Kristín Ragnarsdóttir, íbúi í Grindavík, er ein þeirra fjölmörgu Grindvíkinga sem bíða þess nú að komast inn í bæinn. Hún er á leið með föður sínum heim til hans að sækja persónulega muni. Mestu skipta munir móður hennar sem lést á fimmtudaginn.

Fréttastofa náði tali af Rögnu Kristínu þar sem hún beið í bíl sínum á Suðurstrandarvegi eftir því að fá fylgd með björgunarsveitarfólki inn í Grindavík.

„Ég er að fara með föður minn heim til sín. Við vorum ekki heima þegar var rýming. Við erum bara að bíða eftir að komast heim.“

Eru þetta margir hlutir sem þið þurfið að nálgast?

„Nei, við ætlum bara að taka þetta persónulega. Ég missti mömmu mína á fimmtudaginn svo hugurinn er þar. Taka það með sem hún átti.“

Fær að ná í köttinn eftir allt saman

Þegar rætt var við Rögnu Kristínu á þrettánda tímanum í dag gerði hún ekki ráð fyrir því að fá að fara heim til sín, þar sem hún býr annars staðar í bænum en faðir hennar. Hún hafði töluverðar áhyggjur af kettinum sínum, sem hafði orðið eftir á föstudaginn þegar bærinn var rýmdur.

Um klukkan 13:40 var svo tilkynnt að öllum íbúum Grindavíkurbæjar yrði leyft að aka inn í bæinn að sækja nauðsynjar og gæludýr.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×