Innlent

Full af þakk­læti en al­gjör ó­vissa varðandi morgun­daginn

Kolbeinn Tumi Daðason og Telma Tómasson skrifa
Isabella og Michal ásamt kettinum sem er í eigu systur Isabellu, og er ekki í sérstöku uppáhaldi hjá Michal.
Isabella og Michal ásamt kettinum sem er í eigu systur Isabellu, og er ekki í sérstöku uppáhaldi hjá Michal. Vísir

Systkinin Michal og Isabella voru á meðal þeirra sem urðu á vegi fréttamanns í fjöldahjálpastöðinni í Kórnum í Kópavogi eftir miðnætti. Þau voru hluti af fimmtán starfsmönnum Vísis hf. í Grindavík.

Michal sagðist hafa kosið að dvelja á heimili þeirra í Grindavík og stefnt í það. Hann hefði fundið pressu frá fjölskyldunni að yfirgefa Grindavík og eftir á að hyggja hefði það verið góð ákvörðun.

Hann var að spila tölvuleiki þegar vel var farið að líða á daginn og skjálftarnir fóru að aukast.

„Það var klikkuð tilfinning,“ segir Michal. Isabella systir hans tekur undir. Hún rifjar upp skjálftavirknina fyrir eldgosin í fyrra sem hafi verið allt annars eðlis.

„Hvað er að gerast?“

„Ég fann aldrei svona skjálfta. Ég hugsaði „guð minn góður, hvað er að gerast?““

Hún segist ekki hafa haft áhyggjur af fyrri skjálftum en nú hafi allt farið útum allt. Skápar opnast og hillur tæmst.

„Mér leið ekki vel,“ segir Isabella. „Þetta er í fyrsta skipti sem mig langaði ekki til að búa í Grindavík.“

Þau Michal og Isabella láta vel af lífi sínu í Grindavík og starfi hjá Vísi.

Góð laun og gott land

„Við höfum verið hérna í eitt og hálft ár. Launin eru mjög góð og þetta er mjög gott land,“ segir Michal. Isabella var þakklát móttökunum í Kópavogi.

„Ég er mjög þakklát. Þetta fólk tekur á móti okkur, hjálpar okkur og það eru engin vandamál.“

Starfsfólkið frá Vísi hf. myndar þéttan hóp og systur Isabellu er meðal annars að finna í hópnum.

Michael segist ekki hafa hugmynd um hvað morgundagurinn beri í skauti sér.

„Við vitum ekki hve lengi við þurfum að dvelja hér,“ segir Isabella. Þau bíði eftir SMS.

„Við verðum hér í nótt og svo sjáum við til. Við vitum ekkert.“


Tengdar fréttir

Langur bíltúr framundan til ömmu og afa við Grundarfjörð

Steinar Nói Kjartanson og fjölskylda er meðal þeirra Grindvíkinga sem hafa neyðst til að yfirgefa heimili sitt. Fjölskyldan er á leiðinni til Grundarfjarðar svo langur bíltúr er fyrir höndum. Þau ætluðu að sofa í Grindavík í nótt þar til tilkynning um allsherjarrýmingu barst.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×