Fótbolti

Daníel Leó á skotskónum þökk sé Kristali Mána

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Daníel Leó skoraði sitt fyrsta mark fyrir Sönderjyske í kvöld.
Daníel Leó skoraði sitt fyrsta mark fyrir Sönderjyske í kvöld. @SEfodbold

Fjöldi íslenskra knattspyrnumanna var á ferð og flugi í Evrópu í kvöld. Íslendingalið Sönderjyske stefnir á dönsku úrvalsdeildina. Þá virðist Rúnar Þór Sigurgeirsson vera í góðum málum hjá Willem II í Hollandi.

Í dönsku úrvalsdeildinni var Stefán Teitur Gíslason í byrjunarliði Silkeborg sem gerði 1-1 jafntefli við Randers. Silkeborg er í 3. sæti með 27 stig að loknum 15 leikjum.

Í dönsku B-deildinni vann Sönderjyske 4-1 útisigur á HB Köge. Miðvörðurinn Daníel Leó Grétarsson skoraði fyrsta mark leiksins eftir sendingu Kristals Mána Ingasonar. Ásamt þeim var Atli Barkarson í byrjunarliði Sönderjyske í kvöld. Kristall Máni var tekinn af velli á 64. mínútu en Daníel Leó og Atli spiluðu allan leikinn.

Aron Sigurðarson skoraði eina mark AC Horsen í 1-1 jafntefli við Fredericia. Markið kom úr vítaspyrnu á 11. mínútu. Aron var tekinn af velli á 88. mínútu þegar AC Horsen var enn að vinna 1-0.

Sönderjyske er á toppi dönsku B-deildarinnar með 39 stig. Horsen er í 7. sæti með 21 stig.

Arnór Sigurðsson var í byrjunarliði Blackburn Rovers sem tapaði 1-2 á heimavelli gegn Preston North End í ensku B-deildinni. Arnór var tekinn af velli á 77. mínútu þegar staðan var enn 1-1. Blackburn er í 10. sæti með 22 stig að loknum 16 leikjum.

Albert Guðmundsson spilaði allan leikinn í 1-0 sigri Genoa á Hellas Verona í Serie A, ítölsku úrvalsdeildinni í knattspyrnu. Genoa er í 13. sæti með 14 stig eftir 12 leiki.

Mikael Egill Ellertsson var í byrjunarliði Venezia sem lagði Catanzaro 2-1 í Serie B. Mikael Egill var tekinn af velli fyrir Bjarka Stein Bjarkason á 65. mínútu. Bjarki Steinn kláraði hins vegar ekki leikinn þar sem hann fékk beint rautt spjald á 88. mínútu.

Venzia er í 2. sæti með 27 stig að loknum 13 leikjum, tveimur minna en topplið Parma sem á leik til góða.

Rúnar Þór Sigurgeirsson lagði upp fyrra mark Willem II í 2-1 sigri á Jong Utrecht í hollensku B-deildinni. Willem II er í 1. sæti deildarinnar með 29 stig eftir 15 leiki.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×