Erlent

Geim­farinn Ken Mattingly látinn

Atli Ísleifsson skrifar
Ken Mattingly fór á sporbaug um tunglið í Apollo 16 leiðangrinum 1972.
Ken Mattingly fór á sporbaug um tunglið í Apollo 16 leiðangrinum 1972. NASA

Bandaríski geimfarinn T. Ken Mattingly, sem fór á sporbaug um tunglið í Apollo 16 árið 1972 og gegndi lykilhlutverki í björgunaraðgerðum í Apollo 13-leiðangrinum nokkrum árum fyrr, er látinn. Hann varð 87 ára.

Bandaríska geimvísindastofnunin NASA greinir frá því að Mattingly hafi andast síðastliðinn þriðjudag.

„Geimfari NASA, TK Mattingly gegndi lykilhlutverki í velgengni Apollo-áætlunar okkar, og geislandi persónuleiki hans mun tryggja að hans verður minnst alla tíð,“ segir í yfirlýsingu NASA.

Í kvikmyndinni Apollo 13 frá árinu 1996 fór leikarinn Gary Sinise með hlutverk Mattingly, Tom Hanks með hlutverk Lovell, Bill Paxton með hlutverk Fred Haise og Kevin Bacon með hlutverk Jack Swigert.

Mattingly gegndi lykilhlutverki í björgunaraðgerðum Apollo 13-leiðangursins þar sem hann veitti geimförunum ómetanlega ráðgjöf, en hann hafði sjálfur verið þurft að yfirgefa teymið þremur sólarhringum fyrir áætlað geimskot vegna veikinda.

Ákveðið var taka Mattingly úr teyminu eftir að hann hafði verið útsettur fyrir mislingum. Fór svo að varaskeifan Jack Swigert tók sæti Mattingly í Apollo 13 sem var skotið á loft 11. apríl 1970. Með Swigert um borð voru þeir Jim Lovell og Fred Haise.

Um 56 klukkustundum eftir að Apollo 13 var skotið á loft sprakk súrefnistankur um borð sem varð til þess að annar tankur skemmdist líka. Mattingly veitti félögum sínum dýrmæta ráðgjöf þegar unnið var að því að tryggja að koma þeim óhultum aftur til jarðar.

Árið 1972 gafst Mattingly þó annað tækifæri að fara út í geim í Apollo 16. Mattingly stýrði tunglferjunni, en félagar hans í leiðangrinum, þeir John Young og Charles Duke, vörðu þremur sólarhringum á yfirborði tunglsins. Apollo 16 er næstsíðasti leiðangurinn þar lent var á tunglinu.

Áður hafði Mattingly verið varaskeifa í bæði Apollo 8 og Apollo 11 leiðöngrunum.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×