Erlent

Slóvakía hættir hernaðar­að­stoð við Úkraínu

Rafn Ágúst Ragnarsson skrifar
Robert Fico, nýskipaður forsætisráðherra Slóvakíu, þykir hliðhollur rússneskum stjórnvöldum.
Robert Fico, nýskipaður forsætisráðherra Slóvakíu, þykir hliðhollur rússneskum stjórnvöldum. AP

Nýskipaður forsætisráðherra Slóvakíu, Robert Fico, tilkynnti fyrr í dag að stjórnvöld þar í landi muni stöðva hernaðaraðstoð til Úkraínu og hætta þátttöku landsins í viðskiptabanni gagnvart Rússlandi.

El País greinir frá því að þetta hafi verið á meðal kosningaloforða hans og Smer, flokks hans sem bar sigur úr býtum í þingkosningum þar í landi í síðasta mánuði.

Robert Fico var forsætisráðherra Slóvakíu á árunum 2006 til 2010 og aftur frá 2012 til 2018 en tapaði kosningum 2020 í kjölfar spillingarmála. Í sigurræðu sinni sagði hann að „slóvakíska þjóðin hefði stærri vandamál en Úkraínu“ og bætti við að „frekari dráp hjálpi engum.“ 

Fico hefur áður lýst aðdáun sinni á Viktor Orbán, forsætisráðherra Ungverjalands, sem hefur margsinnis verið sakaður um einræðistilburði og að grafa undan lýðræði og frelsi dómstóla þar í landi. Þá hefur hann einnig gagnrýnt refsiaðgerðir á hendur Rússlandi og þykir hliðhollur Pútín og stjórn hans.

Andrej Danko, formaður hægriöfgaflokksins Þjóðarflokks Slóvakíu sem er einn samstarfsflokka Smer í ríkisstjórn, hefur lýst skýrum stuðningi við Rússland. Hann hefur meðal annars sagt að svæði í Úkraínu sem hafa verið hernumin af Rússlandi séu ekki „sögulega úkraínsk“ og kallað utanríkisráðherra Rússlands, Sergej Lavrov, kæran vin sinn.

Í kosningabaráttunni fjallaði Fico mikið um Úkraínu og meðal helstu loforða hans voru algjör stöðvun á hernaðaraðstoð, aukið sjálfstæði Slóvakíu í utanríkismálum og herða tökin á landamærunum.

Hingað til hefur Slóvakía stutt við bak Úkraínumanna og gefið hernaðargögn ásamt því að opna landamæri sín fyrir Úkraínumönnum sem hafa flúið land vegna átakanna.


Tengdar fréttir

Um­deild­ur fyrr­ver­and­i for­sæt­is­ráð­herr­a í góðr­i stöð­u

Flokkur umdeilds fyrrverandi forsætisráðherra Slóvakíu bar sigur úr býtum í þingkosningum gærdagsins og fékk nærri því fjórðung atkvæða. Smer-flokkurinn er leiddur af Robert Fico, sem þykir vinveittur yfirvöldum í Rússlandi og hefur heitið því að hætta öllum stuðningi við Úkraínu.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×