Erlent

Segja mann­fall í spítala­sprengingunni tals­vert minna en haldið var fram

Jón Þór Stefánsson skrifar
Mannfallið eftir sprenginguna á spítalanum á Gasastöndinni er á reyki.
Mannfallið eftir sprenginguna á spítalanum á Gasastöndinni er á reyki. Getty

Bandarísk stjórnvöld áætla að á bilinu hundrað til þrjú hundruð manns hafi látið lífið í sprengingu sem varð á sjúkrahúsi á Gasaströndinni á þriðjudag. Þá hefur franski fjölmiðillinn Le Point eftir háttsettum evrópskum embættismanni að tala látinna sé á bilinu tíu til fimmtíu manns.

Skömmu eftir að sprenginginn varð héldu Hamas-samtökin því fram að fimm hundruð væru látnir. Daginn eftir sögðu heilbrigðisyfirvöld í Palestínu, sem starfa á svæði undir stjórn Hamas, að nákvæm tala væri 471.

Það liggur því fyrir að tala látinna sé á reyki. Ofan á það hefur mikið verið deilt um hver beri ábyrgð á sprengingunni.

CNN fjallar um mat Bandaríkjanna á sprengingunni, en þar er fullyrt að einungis hafi orðið minniháttar skemmdir á sjálfu sjúkrahúsinu. 

Áður hefur verið greint frá því að Bandaríkin vilji meina að ólíklegt sé að Ísraelsríki hafi framið árásina.

Í skjali frá Bandarískum stjórnvöldum sem CNN hefur undir höndum er áætlað að mannfallið sem varð við sprenginguna sé á milli hundrað og þrjúndruð. Og að líklegra sé að rauntalan sé á lægri enda skalans.

Líkt og áður segir hefur Le Point eftir háttsettum evrópskum embættismanni að talan sé enn lægri en það sem Bandaríkjamenn telja.

„Það eru ekki tvö hundruð til fimm hundruð látnir, heldur frekar nokkrir tugir. Örugglega tíu til fimmtíu,“ segir embættismaðurinn, en fram kemur að hann hafi óskað nafnleyndar. Nafn hans kemur ekki fram í frétt Le Point.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×