Fótbolti

Neymar: „Versta augnablik ævinnar“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Neymar fór grátandi af velli í leik Úrúgvæ og Brasilíu.
Neymar fór grátandi af velli í leik Úrúgvæ og Brasilíu. getty/Guillermo Legaria

Brasilíska fótboltamanninum Neymar segist aldrei hafa liðið verr en núna.

Neymar fór meiddur af velli þegar Brasilía tapaði fyrir Úrúgvæ, 2-0, í undankeppni HM 2026 í fyrradag. Óttast var að meiðslin væru alvarleg og það var svo staðfest í gær þegar greint frá því að Neymar hefði slitið krossband í hné. Því er ljóst að hann spilar ekki fótbolta næstu mánuðina.

Neymar er eðlilega miður sín eftir að ljós komið að krossbandið er slitið. Ekki er langt síðan hann gekkst undir aðgerð vegna meiðsla á ökkla.

„Þetta er mjög sorglegt augnablik, það versta á ævinni,“ sagði Brassinn. 

„Ég veit ég er sterkur en núna þarf ég stuðning fjölskyldu og vina. Það er ekki auðvelt að meiðast, fara í aðgerð og þurfa svo að gera það aftur fjórum mánuðum síðar. En ég trúi. Ég er í höndum guðs.“

Neymar gekk í raðir Al Hilal í Sádi-Arabíu í haust eftir sex ár hjá Paris Saint-Germain. Hinn 31 árs Neymar er markahæstur í sögu brasilíska landsliðsins með 79 mörk.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×