Enski boltinn

Við­ræður Ratclif­fe og Glazer-fjöl­skyldunnar á loka­metrunum

Smári Jökull Jónsson skrifar
Jim Ratcliffe verður líklega orðinn einn af eigendum Manchester United á næstu dögum.
Jim Ratcliffe verður líklega orðinn einn af eigendum Manchester United á næstu dögum. Vísir/Getty

Búist er við að Jim Ratcliffe muni á næstu dögum ganga frá kaupum á 25% hlut í Manchester United fyrir 1,3 milljarða punda. Stjórnarfundur hjá Manchester United fer fram á morgun.

Kaup Ratcliffe hafa verið í deiglunni síðustu daga en um helgina bárust fréttir af því að Sjeik Jassim hafi dregið sig úr baráttunni um kaup á félaginu. Í kjölfarið var greint frá því að Glazer-fjölskyldan væri tilbúin að selja Jim Ratcliffe 25% hlut en Ratcliffe mun að öllum líkindum fá ákvarðanavald yfir knattspyrnutengdum málum hjá félaginu.

„Þetta er mjög flókinn samningur en ég held að það sé þess vegna sem þetta er að taka aðeins lengri tíma en búist var við,“ segir Kaveh Solhekol fréttastjóri hjá Sky Sports.

„Við erum að nálgast lokahluta viðræðanna og ég held að Jim Ratcliffe muni kaupa minnihluta til að byrja með.“

Það sem ýtir undir það að samningar séu á lokametrunum er að INEOS, fyrirtæki Ratcliffe, mun upplýsa eigendur hlutabréfa í félaginu um breytta stöðu á mánudaginn. Bloomberg fréttastofan greinir frá þessu.

Á morgun er síðan á dagskrá stjórnarfundur hjá Manchester United en hann var þó ekki boðaður sérstaklega vegna sölunnar heldur um að ræða reglubundinn fund stjórnar. Fundirnir eru að hluta til rafrænir þar sem Glazer-fjölskyldan er að mestu búsett í Bandaríkjunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×