Innlent

Vill breyta reglum þegar kemur að lyfjakaupum

Lillý Valgerður Pétursdóttir skrifar
Rúna Hauksdóttir Hvannberg, forstjóri Lyfjastofnunar, segir að breyta þurfi því að börn megi kaupa lyf sama á hvaða aldri þau eru.
Rúna Hauksdóttir Hvannberg, forstjóri Lyfjastofnunar, segir að breyta þurfi því að börn megi kaupa lyf sama á hvaða aldri þau eru. Vísir/Arnar

Forstjóri Lyfjastofnunar vill að sett verði aldurstakmörk þegar kemur að lyfjakaupum en í dag mega börn kaupa lyf í apótekum.

Sagt var frá því í þættinum Hliðarlínunni sem sýndur var á Stöð 2 og Stöð 2 Sport í gærkvöldi að dæmi séu um að börn sem þjást af verkjum taki verkjalyf líkt og íbúfen og paratabs til að komast á íþróttaæfingar og til að keppa.

Ekki er kveðið á um nein aldurstakmörk við kaup á lyfjum hvorki í lyfjalögum né reglugerðum.

Fréttastofa sendi þrettán ára strák í tvö apótek til að kaupa verkjalyf og reyndist það lítið mál fyrir hann. Á öðrum staðnum fékk hann lyf afgreidd án athugasemda en á hinum var honum bent á að borða með íbúfeninu og taka ekki meira en þrjár töflur á dag.

„Við erum búin að senda inn athugasemdir og umsögn um þetta af því að okkur hefur verið bent á þetta. Þetta er ekki mikið að koma upp en apótekin eru að óska eftir því að þessar línur séu skýrðar,“ segir Rúna Hauksdóttir Hvannberg forstjóri Lyfjastofnunar.

Rúna telur æskilegt að lyfjalögum verði breytt. Hún bendir á að það sé ákveðinn tvískinnungur í því að það standi á öllum lyfjapökkum varúð geymist þar sem börn ná ekki til og á sama tíma geti börn keypt lyf án athugasemda.

„Við viljum raunverulega að það sé sett einhver aldurstakmörkun. Við vitum bara ekki nákvæmlega við hvaða aldur á að miða og það er kannski eitthvað samtal sem þarf að taka.“

Hún segir hægt að horfa til nágrannalandanna í þessu samhengi.

„Danir eru með fimmtán ár. Við erum með í Heilsuveru við sextán ára aldur. Þannig ég myndi halda að þetta væri einhvers staðar þar.“

Hægt er að sjá brot úr Hliðarlínunni í spilaranum hér fyrir ofan. Þátturinn í heild er á Stöð 2+.


Tengdar fréttir

„Ég brýt á mér átta fingur af tíu“

Kona sem tók verkjalyf daglega þegar hún var barn til að geta stundað fimleika fékk magasár af verkjalyfjanotkun. Ekkert kemur í veg fyrir að börn geti sjálf keypt sér verkjalyf í apótekum. 

„Það þurfti að halda á mér út af vellinum“

Um sjötíu krossbandaaðgerðir voru gerðar á börnum og ungmennum hér á landi á síðasta ári. Bæklunarlæknir segir óhugnanlegt hversu algengt það sé að börn slasist við íþróttaiðkun.

Himinn og haf á milli hegðunar íslenskra foreldra og sænskra

Íslenskur þjálfari segir tvennt ólíkt að fylgjast með foreldrahegðun á fótboltamótum á Íslandi og í Svíþjóð. Sænsku foreldrarnir hegði sér töluvert betur á hliðarlínunni en þar í landi séu upplýsingaskilti við hvern einasta völl þar sem minnt er á hvað sé æskileg hegðun þegar börn keppa.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×