Erlent

Árásarmannsins enn leitað

Jón Þór Stefánsson skrifar
Hæsta viðbúnaðarstig vegna hryðjuverka hefur verið virkjað á meðan mannsins er leitað.
Hæsta viðbúnaðarstig vegna hryðjuverka hefur verið virkjað á meðan mannsins er leitað. Getty

Árásarmannsins, sem skaut tvo Svía til bana í Brussel fyrr í kvöld, er enn leitað. Sá sem er grunaður um verknaðinn segist sjálfur heita Abdesalem Al Guilani, en í myndbandi sem er nú í dreifingu á samfélagsmiðlum játar hann á sig verknaðinn.

„Ég heiti Abdesalem Al Guilani og ég er bardagamaður Allah. Ég er frá Íslamska ríkinu. Við elskum þá sem elska okkur og hötum þá sem hata okkur. Við lifum fyrir trú okkar og deyjum fyrir hana líka. […] Hingað til hef ég myrt þrjá Svía. […] Ef ég hef gert eitthvað á hlut einhvers þá biðst ég fyrirgefningar. Og ég fyrirgef öllum.“ segir maðurinn í myndbandinu.

Fjölmiðlar greina frá því að lögreglan í Belgíu standi í umfangsmiklum aðgerðum til þess að hafa hendur í hári mannsins. Hæsta viðbúnaðarstig vegna hryðjuverka hefur verið virkjað, og fólk hvatt til að halda sig innandyra.

Líkt og áður segir voru fórnarlömb mannsins sænsk, en fótboltaleikur sænska karlalandsliðsins og þess belgíska í undankeppni EM var blásinn af í kjölfar árásarinnar í kvöld. Fram hefur komið að hinir látnu hafi verið í sænskum landsliðstreyjum.

Fréttirnar af árásinni hafa verið mörgum áhrfendum þungbærar.Getty

Saksóknari í Belgíu segir við Reuters-fréttastofuna að ekkert bendi til þess að árásarmaðurinn tengist átökunum í Ísrael og Palestínu. 

Því hefur verið haldið fram að árás mannsins hafi verið hefnd fyrir sex ára dreng sem var myrtur í Illinois-ríki Bandaríkjanna. Drengurinn var múslimi, en móðir hans er einnig alvarlega særð.

Líkt og áður segir myrti maðurinn tvo, og þá er einn særður eftir árás mannsins. Hinn særði er leigubílstjóri. Ástand hans er slæmt, en hann á þó ekki sagður í lífshættu.

Frönsk stjórnvöld íhuga nú að herða landamæraeftirlit sitt svo um munar vegna málsins. Emmanuel Macron, Frakklandsforseti sagði í yfirlýsingu að „Evrópa skjálfi“ vegna atburða kvöldsins.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×