Innlent

Leggur til 1400 prósenta hærri niður­greiðslu vegna tækni­frjóvgunar

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Hildur Sverrisdóttir, þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins.
Hildur Sverrisdóttir, þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins. Vísir/Vilhelm

Hildur Sverrisdóttir, þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins, mælir síðdegis á Alþingi fyrir frumvarpi sínu um breytingar á lögum um tæknifrjóvgun. Málið snýst um að auka endurgreiðslur vegna tæknifrjóvgana til muna. Til að fjármagna þann kostnað leggur Hildur til að fella niður niðurgreiðslu Sjúkratrygginga Íslands á valkvæðum frjósemisaðgerðum.

Núverandi niðurgreiðsla Sjúkratrygginga vegna tæknifrjógvunarmeðferðar er 5%. Með frumvarpinu leggur Hildur til að niðurgreiðslan verði hækkuð upp í 75% sem er fimmtán földun eða sem nemur 1400 prósentum. Þá leggur hún til að niðurgreiðsla við aðra til fjórðu tæknifrjóvgun fari úr 65% í 90%. 

Kostnaður fólks sem fer í fjórar tæknifrjóvganameðferðir lækkar samkvæmt því úr 1.400.000 krónum í 324.500 krónur. Auk þess leggur frumvarpið til að tæknifrjógvanameðferðir vegna fyrirsjáanlegrar ófrjósemi í kjölfar krabbameinsmeðferða á borð við geislameðferð og lyfjameðferð verði gerðar með öllu gjaldfrjálsar. 

Til að fjármagna aukinn kostnað vegna tæknifrjógvana leggur Hildur til að niðurgreiðsla vegna valkvæðra ófrjósemisaðgerða verði felld niður. Hún segir það sjálfsagðan rétt fólk að fara í slíkar aðgerðir en að nauðsynlegt sé að forgangsraða fjármunum ríkisins betur. 

„Það er og verður sjálfsagður réttur fólks að fara í slíkar ófrjósemisaðgerðir, en í stað þess að ríkið standi straum af þeim kostnaði verður fjármununum forgangsraðað betur í því skyni að létta fjárhagslega undir með fólki sem vill reyna að verða foreldrar. Tillaga mín um tilfærslur á niðurgreiðslukerfinu veldur því að í þessu frum¬varpi felst eng¬in út¬gjald¬a¬aukn¬ing. Það skiptir sérlega miklu máli á verðbólgutímum. Ég tel það vera algjört lykilatriði að þeir einstaklingar sem leggja þurfa upp í kostnaðarsamt ferli tæknifrjóvgana upplifi að umgjörð laga og reglna um tæknifrjóvgun séu gerðar þeim til aðstoðar,“ segir Hildur og bætir við:

„Þetta er sanngirnismál, að við hjálpum fólki sem er í þeirri stöðu að geta ekki eignast börn eða á í erfiðleikum með það, og ég veit að þessar breytingar munu skipta fjölda fólks heilmiklu máli.“


Tengdar fréttir

Egg­heimta vegna krabba­meins­með­ferðar verði niður­greidd

Hildur Sverrisdóttir, þingkona Sjálfstæðisflokksins, hyggst leggja fram frumvarp um að eggheimta sem sé komin til vegna krabbameinsmeðferðar verði tekin inn í greiðsluþátttökukerfi Sjúkratrygginga. Þetta kom fram í Leggönguboði 66°Norður á Hafnartorgi í gærkvöldi.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×