Erlent

Frakkar fárast yfir veggjalúsafar­aldri

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Lúsleitað.
Lúsleitað. Getty

Veggjalúsaplága gengur nú yfir í París og fleiri borgum í Frakklandi en þrátt fyrir að lýsnar séu sannarlega „út um allt“ og frekar ógeðfelldar segja sérfræðingar ógnina þó ýkta á samfélagsmiðlum.

„Síðsumars sjáum við alltaf mikla aukningu á veggjalús,“ segir Jean-Michel Berenger, skordýrafræðingur við sjúkrahúsið í Marseille og helsti sérfræðingur Frakka í veggjalús. „Það er vegna þess að fólk hefur verið að ferðast í júlí og ágúst og flytur hana til baka í farangrinum sínum,“ bætir hann við.

Berenger segir aukninguna verða meiri ár frá ári og þannig er eðlilegt að fólk verði vart við pestina. Samkvæmt könnunum hefur einn af hverjum tíu Parísarbúum þurft að takast á við vandann á síðustu fimm árum.

Frásagnir af veggjalús í kvikmyndahúsum og um borð í lestum hafa ratað á samfélagsmiðla. Þær hafa ekki verið sannaðar en bæði borgaryfirvöld og stjórnvöld í Frakklandi virðast taka þær alvarlega, enda stendur til að halda Ólympíuleika í höfuðborginni á næsta ári.

Samkvæmt umfjöllun Guardian virðast samfélagsmiðlar þó vera að hafa þau áhrif að það sem var eitt sinn hefðbundið umfjöllunarefni franskra miðla í gúrkutíð á haustmánuðum er nú orðið að þjóðaröryggismáli.

Berenger segir nýjan þátt hafa bæst við veggjalúsajöfnuna; múgæsingu.

„Þetta er gott að því leiti að þetta gerir fólk meðvitað um vandann og því fyrr sem þú grípur til aðgerða gegn veggjalús því betra. En vandamálið hefur verið ýkt,“ segir hann.

Veggjalúsin er meira áberandi en áður þar sem fólk og varningur ferðast meira um og þar sem mörg þeirra efna sem voru notuð til að halda henni í skefjum hafa verið bönnuð. Þá eru veggjalýs nútímans afkomendur þeirra sem lifðu efnaárásirnar og mögulega ónæmari en forfeður sínir.

Aukið hreinlæti hefur auk þess dregið verulega úr fjölda kakkalakka, sem héldu veggjalúsinni í skefjum.

Berenger segir fólk „panikka“ yfir veggjalúsinni í dag þar sem hún hefur eiginlega fallið í gleymskunnar dá. Hættan sé meira sálfræðileg en raunveruleg, þar sem hún sé ekki smitvaldur og bit hennar séu að stærstum hluta meinlaus.

Hér má finna ítarlega umfjöllun BBC um málið.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×