Erlent

Prestur grunaður um að hafa nauðgað fjórum vinkonum sínum

Jóhann Hlíðar Harðarson skrifar
Getty Images

Lögreglan í Málaga á Spáni hefur handtekið 33 ára gamlan prest sem er grunaður um að hafa nauðgað fjórum vinkonum sínum eftir að hafa byrlað þeim slævandi lyf. Unnusta mannsins kærði hann til lögreglunnar.

Unnusta prestsins lét biskupinn vita

Unnusta prestsins fór á biskupsskrifstofuna í Melilla, sem er spænsk nýlenda í Marokkó, í byrjun janúar, til þess að tilkynna að hún væri unnusta hans sem og til að láta vita af því að hún hefði fundið harðan disk á heimili prestsins þar sem væru upptökur af honum í samförum við konur sem ekki virtust vera með meðvitund.

Engin viðbrögð, bara færður til í starfi

Einu viðbrögð biskupsins voru að færa prestinn til í starfi. Hann var fluttur til lítilla bæja á Suður-Spáni og þar með taldi biskup sig ekki þurfa að aðhafast frekar. Biskupinn heldur því fram að konan hafi alls ekki tilkynnt um neinar myndbandaupptökur á hörðum diski, heldur eingöngu tjáð sér að hún og presturinn byggju saman.

Presturinn var handtekinn í byrjun september, þá hafði unnustan fengið sig fullsadda af aðgerðaleysi kirkjunnar og lét lögregluna fá harða diskinn. Nokkrum dögum síðar svipti kirkjan hann hempunni og nú situr presturinn í gæsluvarðhaldi.

Nauðgaði konunum í útilegum

Svo virðist sem presturinn hafi verið hluti af trúarlegum vinahópi sem fór reglulega saman í útilegu. Þar notaði hann tækifærið til að byrla vinkonum sínum slævandi lyf og þegar þær höfðu misst meðvitund, þá nauðgaði hann þeim og tók verknaðinn upp á myndband.

Þær segja allar að þær hafi ekki haft minnstu hugmynd um það sem gerðist. Lögreglan útilokar ekki að fórnarlömbin séu fleiri.

Þessi kynferðisglæpur innan veggja spænsku kirkjunnar er einungis sá nýjasti af hundruðum slíkra á síðustu árum og áratugum sem flett hefur verið ofan af á síðustu misserum.

Fordæmdi sjálfur glæpi innan kirkjunnar

Presturinn sem nú hefur verið gómaður sagði sjálfur í blaðaviðtali fyrir tæpum áratug, þá rúmlega tvítugur guðfræðinemi að það væri fagnaðarefni að kirkjan væri loksins farin að taka á kynferðisglæpum kirkjunnar manna. Þeir væru smánarblettur á kirkjunni og mikilvægt væri að taka á þeim af hörku.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×