Erlent

Talinn hafa fellt sögu­frægt tré við Hadríanusar­múrinn

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Lögregla skoðar hér aðstæður á vettvangi.
Lögregla skoðar hér aðstæður á vettvangi. Owen Humphreys/PA via AP

Sextán ára drengur í norðurhluta Englands hefur verið handtekinn, grunaður um að hafa fellt eitt ástsælasta tré Englands. 

Um er að ræða garðahlyn sem stóð við Hadríanusarmúrinn í Northumberland. Tréð var fellt í skjóli nætur, og telur lögregla að um viljaverk hafi verið að ræða. 

Breska ríkisútvarpið greinir frá málinu, og segir drenginn samvinnufúsan við lögreglu. 

Mikill missir

Tréð sem um ræðir er um 200 ára gamalt og var sem áður sagði eitt ástsælasta tré Englendinga. Það stóð við Hadríanusarmúrinn í Northumbria, en múrinn var byggður af Rómverjum fyrir um 1.900 árum síðan, á tímum Hadríanusar keisara. 

Trénu hefur meðal annars brugðið fyrir í kvikmyndinni Robin Hood: Prince of Thieves frá árinu 1991, þar sem Kevin Costner fór með titilhlutverk alþýðuhetjunnar Hróa Hattar. Þá var tréð valið tré ársins í samkeppni samtakanna Woodland Trust árið 2016. Þá hefur tréð verið vinsælt viðfangsefni atvinnu- og áhugaljósmyndara sem dvalið hafa í norðurhluta Englands.

Samfélagið í áfalli

Sky-fréttastofan hefur eftir sérfræðingum að ólíklegt sé að hægt sé að halda lífi í trénu.

„Þegar þú ert með þetta gamalt tré og skurðurinn er svona stór, þá mun sjokkið sennilega drepa það sem eftir er af trénu,“ er haft eftir John Parker, framkvæmdastjóra trjáræktarsamtaka í Englandi. 

Samfélagið í grennd við tréð er þá sagt í áfalli. National Trust, góðgerðarsamtökin sem eiga landið sem tréð stóð á, segja í yfirlýsingu að um sé að ræða sorgarfréttir.

„Tréð hefur verið mikilvægur hluti af landslaginu í nær 200 ár og hefur mikla þýðingu, bæði fyrir íbúa og þá sem hafa heimsótt svæðið.“



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×