Erlent

Nagorno-Karabakh heyrir sögunni til

Samúel Karl Ólason skrifar
Armenar á flótta frá Nagorno-Karabakh.
Armenar á flótta frá Nagorno-Karabakh. AP/Stepan Poghosyan

Samvel Shahramanyan, forseti sjálfstjórnarsvæðisins Nagorno-Karabakh, hefur skrifað undir tilskipun að sjálfstjórnin verði felld niður. Þar með hefur hann staðfest uppgjöf héraðsins fyrir Aserbaídsjan eftir 32 ára baráttu fyrir sjálfstæði, stríð og átök.

Yfirvöld í Armeníu segja helming íbúa héraðsins hafa flúið til Armeníu á undanförnum dögum. Í gær hafði fjórðungur íbúa flúið.

Aserar og Armenar hafa deilt um Nagorno-Karabakh um árabil og kom þar til mikilla átaka árið 2020. Aserar unnu þau átök á skömmum tíma. Héraðið er hluti af Aserbaídsjan en hefur verið stýrt af Armenum sem eru í miklum meirihluta íbúa þar, frá 1994 þegar sex ára stríði ríkjanna lauk.

Hersveitir Aserbaísdsjan réðust inn í héraðið þann 19. september og sögðu að aðskilnaðarsinnar Armena fellt tvo vegagerðarmenn og fjóra lögreglumenn með jarðsprengjum. Degi síðar gáfust sveitir aðskilnaðarsinna upp.

Aserar höfðu þá þrýst mjög á íbúa héraðsins um mánaða skeið og myndað herkví um svæðið. Ekki hafði verið hægt að senda matvæli og aðrar nauðsynjar á svæðið í einhverju magni í langan tíma.

Í frétt AP fréttaveitunnar segir að skjalið sem Shahramanyan skrifaði undir vísi til samkomulags frá því í síðustu viku um að yfirvöld í Aserbaídsjan muni leyfa íbúum héraðsins að fara sinnar leiðar án afskipta og í staðinn leggi íbúar og sveitir aðskilnaðarsinna niður vopn.

Skjalið segir einnig til um að íbúar Nagorno-Karabakh ættu að kynna sér skilyrði fyrir enduraðlögun í Aserbaídsjan og taka í kjölfarið ákvörðun um það að vera áfram í héraðinu, eða snúa aftur þangað.

Ruben Vardanyan, fyrrverandi leiðtogi ríkisstjórnar sjálfstjórnarhéraðsins, var í gær ákærður fyrir að fjármagna hryðjuverkastarfsemi, myndun ólöglegra vígahópa og fyrir að fara ólöglega yfir landamæri Aserbaídsjan.


Tengdar fréttir

Aðskilnaðarsinnar í Nagorno-Karabakh gefast upp

Sveitir Armena í Nagorno-Karabakh hafa gefist upp fyrir Aserum, sem gerðu atlögu að héraðinu í gær. Vopnahlé var sett á klukkan níu í morgun, að íslenskum tíma, og eiga viðræður milli Armena í héraðinu og yfirvalda í Aserbaídsjan að eiga sér stað á morgun.

Átök hefjast á ný í Nagorno-Karabakh

Ráðamenn í Aserbaídsjan tilkynntu nú fyrir skömmu að her ríkisins væri að reyna að uppræta hryðjuverkamenn í héraðinu Nagorno-Karabakh. Myndbönd eru þegar byrjuð að berast af árásum hersins í héraðinu.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×