Innlent

Inniliggjandi með covid fjölgar hratt

Sunna Sæmundsdóttir skrifar
Guðrún Aspelund sóttvarnalæknir biður fólk um að taka tillit til annarra og taka upp sprittið.
Guðrún Aspelund sóttvarnalæknir biður fólk um að taka tillit til annarra og taka upp sprittið. Vísir/Arnar

Töluvert álag er á Landspítalanum vegna covid-veikinda og fjöldi þeirra sem eru inniliggjandi með veiruna hefur þrefaldast á stuttum tíma. Sóttvarnalæknir hvetur fólk sem er með einkenni til þess að taka tillit til þeirra sem eru í áhættuhópum.

Nokkrar kvefpestir herja nú á landsmenn og að sögn Guðrúnar Aspelund, sóttvarnalæknis, hafa fleiri verið að greinast með covid. Fólk er ekki að fara í sýnatökur líkt og áður og nær tölfræðin því einungis til þeirra sem eru að veikjast töluvert.

„Það hafa verið fleiri inni á spítalanum undanfarnar tvær vikur. Um svona tuttugu manns sem eru þar inni með eða vegna covid,“ segir Guðrún.

Þetta er umtalsverð fjölgun frá því sem verið hefur að sögn Guðrúnar en undanfarið hafa að meðaltali fimm til sjö verið inniliggjandi á Landspítala með covid. 

Ekki liggur þó fyrir hvort fólk sé lagt inn vegna veirunnar eða upphaflega af öðrum ástæðum. Guðrún bendir þó á að ekki sé almennt skimað fyrir veirunni á spítalanum og því séu viðkomandi með veikir með einkenni covid. Hún hefur ekki gögn um aldurssamsetningu hópsins en segir yfirleitt um eldra fólk að ræða.

Töluvert álag sé á spítalanum. „Þau finna finna alveg fyrir þessum sjúklingum sem eru með covid og aðrar öndunarfærasýkingar.“

Um fimm til sjö hafa almennt verið inniliggjandi með covid en nú eru um tuttugu manns með covid á Landspítalanum.vísir/Vilhelm

Afbrigðið sem herjar á landsmenn er undirafbrigði ómíkron og um mánaðarmótin er von á uppfærðu bóluefni með tilliti til þess. Ákveðnir hópar verða þá hvattir til að fara í örvunarbólusetningu.

„Þetta eru þá allir sextíu ára og eldri og fólk með langvinna sjúkdóma, eins og hjarta- og lungnasjúdóma, offitu, sykursýki, ónæmisbældir einstaklingar og forgangshópar, eins og heilbrigðisstarfsmenn sem sinna þessum hópum og einnig þungaðar konur,“ segir Guðrún.

Hún mælir með því að fólk noti heimapróf og taki tillit til annarra.

„Ástæðan er sú að covid er mjög smitandi og veldur alvarlegri veikindum hjá ákveðnum hópum. Umfram bólusetninguna biðjum við fólk að hafa í huga almennar sóttvarnir, handþvott, halda fjarlægð og passa upp á umgengni við aðra,“ segir Guðrún Aspelund, sóttvarnalæknir.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×

Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.