Innlent

Dagdrykkja meðal sjúklinga SÁÁ þrefaldast á þrjátíu árum

Helena Rós Sturludóttir skrifar
Lára G. Sigurðardóttir er læknir hjá SÁÁ hún segir áfengisnetverslanir mikið áhyggjuefni.
Lára G. Sigurðardóttir er læknir hjá SÁÁ hún segir áfengisnetverslanir mikið áhyggjuefni. Vísir/Sigurjón

Netverslun áfengis er mikið áhyggjuefni að sögn læknis hjá SÁÁ. Áfengisneysla hefur tæplega tvöfaldast á síðustu fjörutíu árum hér á landi hjá fimmtán ára og eldri. Þá hefur fjöldi þeirra skjólstæðinga SÁÁ sem drekkur daglega rúmlega þrefaldast á þrjátíu árum.

Aukið aðgengi að áfengi eykur neyslu var meðal þess sem var rætt á norrænni ráðstefnu um áfengi og lýðheilsu í dag. Í opnunarávarpi sínu sagði heilbrigðisráðherra aukna áfengisneyslu mikið áhyggjuefni. Rætt var um aukna neyslu áfengis síðustu fjörutíu ár. Fram kom í Fréttablaðinu í fyrra að neysla meðal fimmtán ára og eldri hefði nánast tvöfaldast á tímabilinu.

„Gögnin um aukinn aðgang eru skýr og óumdeilanleg. Greiðari aðgangur leiðir til aukinnar notkunar. Þetta er staðreynd og þetta er staðreynd sem við verðum að viðurkenna og horfast í augu við og við megum aldrei líta fram hjá henni í forvarnarbaráttunni,“ sagði Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra í dag. 

Læknir hjá SÁÁ tekur undir orð ráðherra og segir mikla aukningu í dagdrykkju sérstaklega varhugaverða. Í kringum 1990 hafi um sautján prósent skjólstæðinga sem lögðust inn á Vog með áfengisvanda neytt áfengis daglega.

„Núna þegar við skoðun síðasta ár þá hefur í raun neyslan verið komin upp í 66 prósent þannig að neyslan á þessu tímabili hefur meira en þrefaldast. Við erum að sjá líka það að neyslan er jafnvel yfir 70 prósent þeir sem neyta áfengis daglega þeir sem eru 50 ára og eldri. Þannig sérstaklega í eldri aldurshópunum þar sem dagneysla er orðin gríðarlega algeng,“ segir Lára G. Sigurðardóttir læknir hjá SÁÁ. 

Mestu áhyggjurnar séu pressan frá þinginu og nokkrum þingmönnum um að gera áfengissölu frjálsa. „Það er það sem allir sérfræðingarnir hér í dag hafa verið að vara okkur við,“ segir Lára en netsala áfengis hefur aukist gríðarlega síðustu misseri og þar með stóraukið aðgengi fólks. 

„Ríkiseinokun er í raun það form af sölufyrirkomulagi sem hefur mesta forvarnargildið fyrir þjóðir og við höfum gert vel hingað til,“ segir Lára. 


Tengdar fréttir

Mun fleiri fá skorpu­lifur vegna á­fengis­neyslu

Skorpulifur er vaxandi vandmál hér á landi en nýgengi hefur margfaldast síðast liðin ár og aukin þörf verður fyrir lifrarígræðslu á næstu árum. Áfengisneysla er helsti orsakavaldurinn að mati lifrarlæknis.

Aukin neysla mikið áhyggjuefni

Heilbrigðisráðherra segir það áhyggjuefni hversu mikið áfengis- og fíkniefnaneysla hefur aukist hér á landi. Áfengisneysla hefur aukist um níu prósent á mann á tíu ára tímabili og notkun á ópíóðum hefur aldrei verið meiri.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×