Íslenski boltinn

Víkingar strá salti í sár Blika

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Skiltið er staðsett við heimavöll Breiðabliks.
Skiltið er staðsett við heimavöll Breiðabliks. Twitter@Jonsi82

Víkingur varð á laugardag bikarmeistari karla í knattspyrnu eftir 3-1 sigur á KA. Eðlilega var sigurinn auglýstur við Fífunna, þar sem Breiðablik hefur aðsetur en liðin hafa eldað grátt silfur undanfarin misseri.

Víkingur og Breiðablik eru án efa tvö bestu liðin í Bestu deild karla. Víkingar eru hins vegar við það að vinna tvöfalt og virðist sem Víkingar ætli að sjá til þess að Blikar taki svo sannarlega eftir því þegar þeir mæta niður í Fífu.

Jón Stefán Jónsson, knattspyrnuþjálfari og leikgreinandi hjá HK, vakti athygli á þessu á Twitter-síðu sinni:

„Auglýsingaskiltið við hlið Fífunnar í kvöld. Fyrir aðdáanda góðs banter þá er þetta eiginlega dásamlega gott þó ég sé hlutlaus í þessum ríg.“

Haraldur Haraldsson, framkvæmdastjóri Víkinga, var ekki lengi að útskýra hvað gengi þarna á.

„Höfum gert þetta fyrir alla okkar titla síðustu ár. Ekki bara í Fífunni heldur öll skilti Billboard á höfuðborgarsvæðinu,“ 

sagði Haraldur á Twitter-síðu sinni. Eysteinn Lárus Pétursson, framkvæmdastjóri Breiðabliks, tók í sama streng:

„Við Blikar vorum á öllum skiltum höfuðborgarsvæðisins þegar við unnum Íslandsmeistaratitilinn karlameginn i fyrra og bikarinn kvennameginn árið áður! Þannig er nú það og ekkert nýtt undir sólinni hér.“

Það er ljóst að framkvæmdastjórarnir tveir vilja ekki hella olíu á eldinn en stuðningsfólk beggja liða hefur verið duglegt að skjóta hvot á annað á samfélagsmiðlum undanfarið.
Fleiri fréttir

Sjá meira


×

Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.