Erlent

Bretar banna ban­væna hunda­­tegund

Sólrún Dögg Jósefsdóttir skrifar
Hunda af tegundinni American bully XL geta orðið allt að sextíu kílógrömm.
Hunda af tegundinni American bully XL geta orðið allt að sextíu kílógrömm. Getty

Forsætisráðherra Bretlands hefur greint frá því að hundategundin American bully XL verði bönnuð í landinu í lok árs. Skyndileg aukning dauðsfalla í kjölfar árása hunda af tegundinni hefur orðið síðustu tvö ár. 

Síðastliðna viku hafa tvær alvarlegar árasir hunda af tegundinni American bully XL orðið í Bretlandi. Í gær varð einn slíkur karlmanni að bana í bænum Walsall. Á laugardag réðst hundur af sömu tegund á ellefu ára stúlku auk tveggja karlmanna í bænum Bordesley Green.

Rishi Sunak forsætisráðherra Bretlands hefur nú sagt að hundategundin verði endanlega bönnuð í landinu við lok þessa árs, samkvæmt frétt BBC

Þá segir að eigendur séu mótfallnir banninu og segi að þrátt fyrir ógnvekjandi útlit hundanna séu þeir hin vænstu gæludýr.

Hundategundin American Bully XL er sögð hafa orðið til undir lok níunda áratugar síðustu aldar þegar ræktendur blönduðu hundategundunum American pit bull terrier og American staffordshire saman. Hundar af tegundinni geta vegið allt að sextíu kílóum og orðið nógu sterkir til þess að tækla fullorðinn mann.

Tíu dauðsföll í fyrra

Auk þeirra tveggja árása sem orðið hafa síðastliðna viku hefur orðið mikil aukning í árásum tegundarinnar síðustu tvö ár. Í apríl urðu tveir hundar af tegundinni 65 ára gamalli konu að bana þegar hún reyndi að stía í sundur hundana sína tvo er þeir slógust. 

Í fyrra lést sautján mánaða barn eftir að fjölskylduhundurinn, sem var af tegundinni American bully XL, réðst á það. Þá lést tíu ára barn í Caerphilly árið 2021 eftir að slíkur hundur veittist að því. 

Í tímaritinu Public Health journal segir að skyndileg aukning hafi orðið í dauðsföllum tengdum árásum hunda á árinu 2022, þau hafi verið tíu talsins það ár í Englandi og Wales. Talið er að heildarfjöldi dauðsfalla vegna slíkra árása frá árinu 2021 sé fjórtán. 


Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×