Innlent

Munu mögu­lega sæta að­gerðum af hálfu er­lendra ríkja

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Erna Ýr Öldudóttir er annar tveggja Íslendinga sem ferðaðist til Úkraínu til að taka þátt í „kosningaeftirliti“.
Erna Ýr Öldudóttir er annar tveggja Íslendinga sem ferðaðist til Úkraínu til að taka þátt í „kosningaeftirliti“. Vísir

Utanríkisráðuneytið segir ekki útilokað að erlend ríki muni grípa til aðgerða gegn tveimur Íslendingum sem tóku þátt í „kosningaeftirliti“ í Kherson á dögunum, einu þeirra svæða sem Rússar hafa hernumið í Úkraínu.

Frá þessu greinir Morgunblaðið.

Antony Blinken, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, sagði í fréttatilkynningu á dögunum að svokallaðir „alþjóðlegir kosningaeftirlitsmenn“ myndu mögulega sæta refsiaðgerðum og ferðatakmörkunum.

DV greindi frá því á dögunum að umræddir Íslendingar væru Erna Ýr Öldudóttir og meindýraeyðirinn Konráð Magnússon en þau voru meðal nokkurra erlendra ríkisborgara sem fylgdust með kosningunum.

Samkvæmt miðlinum EU Observer var vitnað í Konráð í rússneskum miðlum, þar sem hann var sagður hafa hrósað framkvæmd kosninganna. Var hann kallaður „kosningasérfræðingur“ en dálkahöfundur EU Observer vill hins vegar meina að aðkoma hans að svokölluðum kosningum, meindýraeyðis frá Íslandi, sé til marks um einangrun Rússlands á hinum alþjóðlega vettvangi.

Í svörum utanríkisráðuneytisins við fyrirspurn Morgunblaðsins segir meðal annars að öll um ræða um „eftirlit“ með „gervikosningum“ sé skrumskæling.

„Íslensk stjórnvöld fordæma allar gervikosningar sem haldnar eru á hernumdum svæðum Úkraínu. Sá gjörningur sem átti sér stað í Kherson er marklaus, enda voru umræddar „kosningar“ í trássi við alþjóðalög, eins og allur stríðsrekstur Rússlands í Úkraínu,“ segir í svarinu.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×