Umfjöllun og viðtöl: FH - Þróttur 2-3 | Þróttur heldur áfram að setja pressu á Evrópusætið

Andri Már Eggertsson skrifar
_O2A2759 (4)
vísir/hulda margrét

Þróttur hafði betur gegn FH 2-3 í hörkuleik. Þróttur jafnar Breiðablik að stigum og baráttan um Evrópusæti er orðin mikil. 

Leikurinn fór afar rólega af stað og minnti mikið á síðasta leik milli liðanna sem endaði með markalausu jafntefli.

Fyrsta færið kom eftir tæplega fimmtán mínútna leik. Katherine Amanda Cousins átti frábæra sendingu inn fyrir vörn FH á Kötlu Tryggvadóttur sem komst í góða stöðu vinstra megin í teignum en skotið í hliðarnetið.

Katherine fór síðan af velli vegna meiðsla eftir að boltinn fór út af þar sem hún hafði fengið aðhlynningu skömmu áður.

Þegar hálftími var liðinn færðist fjör í leikinn. Bæði lið fóru að ógna meira á síðasta þriðjungi og fengu færi til þess að skora.

Það var síðan á 37. mínútu þegar Katla Tryggvadóttir lét vaða langt fyrir utan teig og boltinn fór í stöngina í bakið á Aldísi Guðlaugsdóttur, markmanni FH, og í markið.

Þremur mínútum seinna skoruðu gestirnir annað mark. Katla átti allt of fasta sendingu sem Aldís komst inn í en missti síðan boltann úr höndunum og beint á Freyju Katrínu Þorvarðardóttur sem skoraði í autt markið.

Eftir 30 mínútur af engu voru gestirnir tveimur mörkum yfir í hálfleik 0-2.

Guðni Eiríksson, þjálfari FH, var ekki sáttur með hvernig fyrri hálfleikur spilaðist og svaraði með þrefaldri breytingu í hálfleik.

Skiptingar Guðna höfðu strax áhrif því á 48. mínútu átti Harpa Helgadóttir sendingu fyrir markið sem Alma Mathiesen stangaði í markið. Colleen Kennedy átti síðan skot sem fór í varnarmann og í þverslána. Ótrúleg byrjun hjá FH í síðari hálfleik.

Þróttur fékk síðan vítaspyrnu skömmu síðar þegar að Aldís braut klaufalega á Freyju sem var að elta boltann. Katla tók vítið og renndi boltanum í vinstra hornið en Aldís fór í rangt horn.

Þrátt fyrir að hafa fengið á sig svekkjandi mark úr vítaspyrnu þá hélt FH áfram að sækja á mark Þróttar og heimakonur fengu tækifæri til þess að minnka muninn.

Shaina Faiena Ashouri skoraði síðan annað mark FH á 88. mínútu. Lillý Rut Hlynsdóttir átti sendingu á Shaina sem leitaði inn á miðju og átti þrumuskot langt fyrir utan teig þar sem boltinn fór yfir Írisi Dögg og í markið.

Í uppbótartíma jafnaði Sunneva Hrönn Sigurvinsdóttir en flaggið fór á loft og rangstaða dæmd. Eftir að hafa séð atvikið aftur var þetta kolrangur dómur og markið hefði átt að standa.

Niðurstaða 2-3 sigur Þróttar.

Af hverju vann Þróttur?

Þrátt fyrir að fyrri hálfleikur hafi verið mjög lokaður þá var Þróttur 0-2 yfir í hálfleik. Það var heppnisstimpill yfir mörkum Þróttar en mörkin telja jafn mikið.

FH gerði allt til þess að jafna leikinn og hefði átt skilið stig út úr leiknum en lukkan var með Þrótti að þessu sinni.

Hverjar stóðu upp úr?

Það fór allt í gegnum Kötlu Tryggvadóttur. Í fyrsta markinu átti Katla skot í stöngina sem fór í bakið á Aldísi og í markið. Sending Kötlu í öðru markinu endaði með því að Aldís tók boltann og missti hann sem endaði með marki og að lokum tók Katla vítaspyrnuna og skoraði þriðja mark Þróttar.

Hvað gekk illa?

Aldís Guðlaugsdóttir, markmaður FH, átti afar slæma frammistöðu. Öll mörk Þróttar má rekja til hennar.

Í fyrsta markinu fór boltinn í stöngina og í bakið á Aldísi og boltinn lak inn, í öðru markinu missti hún boltann úr höndunum og Freyja skoraði í autt markið, í þriðja markinu braut hún klaufalega á Freyju í vítateignum og Þróttur fékk vítaspyrnu.

Sunneva Hrönn jafnaði í uppbótartíma en markið var ranglega tekið af henni og það er því ansi svekkjandi fyrir FH að tapa leiknum á svona atviki.

Hvað gerist næst?

Næsta sunnudag fer FH á Origo-völlinn og mætir Val klukkan 14:00.

Á sama tíma mætast Þróttur og Þór/KA á Avis-vellinum.

Nik: Lið sem ná árangri vinna svona leiki

Nik var ekki sáttur.Vísir/Hulda Margrét

Nik Chamberlain, þjálfari Þróttar, var afar ánægður með sigurinn.

„FH á hrós skilið eftir þennan leik. Lukkan var ekki með okkur gegn Tindastóli, ÍBV og Keflavík en hún var með okkur í dag,“ sagði Nik í viðtali eftir leik.

Nik kom inn á að heppnin hafi verið með Þrótti sem voru 0-2 yfir í hálfleik.

„Við áttum sennilega ekki skilið að vera 0-2 yfir í hálfleik en heppnin var með okkur. Í liði sem nær árangri þarftu að vinna og spila illa og þetta var þannig leikur.“

FH gerði tilkall til þess að jafna leikinn og Nik var ánægður með hvernig Þróttur varðist undir lokin.

„Ég var ánægður með hvernig liðið varðist undir lokin. Við vörðum teiginn vel og náðum að klára þetta með sigri.“

Eftir sigurinn er Þróttur í góðum möguleika á að ná Evrópusæti og Nik var spenntur fyrir framhaldinu.

„Við unnum Breiðablik tvisvar sem var mikilvægt. Þetta er samt ekki alveg í okkar höndum þar sem við gætum unnið alla okkar leiki en ekki náð öðru sætinu. Við tökum bara einn leik í einu,“ sagði Nik Chamberlain að lokum.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira