Erlent

Dróna­á­rásir í Rúss­landi og Úkraínu­menn fá um­deild skot­færi

Gunnar Reynir Valþórsson skrifar
Skotfæri svipaðrar gerðar og um ræðir.
Skotfæri svipaðrar gerðar og um ræðir. Staff Sgt. Nicholas Perez/U.S. Air National Guard via AP

Úkraínumenn eru sagðir hafa gert drónaárásir í nótt á rússnesku landsvæði.

Borist hafa fregnir af árásum á miðborg Rostov við Don og einnig í grennd við höfuðborgina Moskvu. Landsstjóri Rostov segir að einn hafi slasast í árásunum og að nokkrir bílar séu skemmdir. Um hafi verið að ræða tvo dróna sem báðir hafi verið skotnir niður að lokum. Þá segir borgarstjóri Moskvu að að dróni hafi verið skotinn niður í úthvergi borgarinnar í nótt og að ekkert tjón hafi hlotist af því.

Bandaríkjamenn hafa nú staðfest opinberlega að þeir ætli að senda Úkraínumönnum skotfæri sem gerð eru úr rýrðu úrani en þetta var tilkynnt á sama tíma og utanríkisráðherrann Antony Blinken heimsótti Kænugarð.

Slík skotfæri eru afar umdeild og hafa Rússar þegar fordæmt fyrirætlanirnar. Skotin eru hönnuð til að fara í gegnum brynvörn annara skrið- og bryndreka og eru þau ætluð Abrams-skriðdrekum sem einnig verða sendir til Úkraínu á næstu vikum. Rýrt úran er aukaafurð auðgunar úrans og er notað í skotfæri sem þessi vegna þess hve þéttur málmurinn er. Það gerir skotum úr rýrðu úrani kleift að rjúfa hefðbundnar brynvarnir auðveldar. Gagnrýnendur halda því fram að af þeim stafi mengun. Innöndun ryks úrans geti valdið krabbameini og fæðingargöllum.

Rýrt úran er geislavirkt en mun minna geislavirkt en náttúrulegt úran. Kjarnorkumálastofnun Sameinuðu þjóðanna hefur sagt að rannsóknir í fyrrverandi Júgóslavíu, Kúvæt, Írak og Líbanon, þar sem skot eins og þau sem um ræðir hafa verið notuð í miklu magni, sýni að íbúum stafi ekki ógn af þeim ögnum sem notkun þeirra skilur eftir.


Tengdar fréttir

Senda Abrams og umdeild skot úr rýrðu úrani til Úkraínu

Ríkisstjórn Bandaríkjanna mun í fyrsta skipti senda Úkraínumönnum umdeild skotfæri fyrir skriðdreka sem inniheldur rýrt úran. Skotin eru hönnuð til að fara í gegnum brynvörn annara skrið- og bryndreka og eru þau ætluð Abrams skriðdrekum sem einnig verða sendir til Úkraínu á næstu vikum.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×